135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

Sundabraut.

321. mál
[14:58]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég lýsi mig fyllilega sammála þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað fyrir nauðsyn þess að velja ystu leiðina í göngum í þeim áfanga Sundabrautar sem hér er rætt um. En ég er komin í ræðustól til þess að ræða framhaldið, þegar komið er upp úr göngunum á Gufunesi, um Geldinganes, yfir á Gunnunes og upp á Kjalarnes.

Ég vil hvetja menn til að huga að því hvernig hönnun vegarins á því svæði verði háttað og það verði gert með hagsmuni umhverfisins fyrst og fremst að leiðarljósi. Vegurinn mun liggja um verndarsvæði á náttúruminjaskrá, þ.e. Leirvoginn. Þar er jafnframt vert að huga að göngum til að hlífa bæði hinu viðkvæma náttúruminjasvæði en einnig íbúabyggðinni og golfvellinum þar fyrir ofan.

Ég treysti, eins og aðrir sem hér hafa talað, samgönguráðherra til þess að passa upp á þá hluti.