137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

ríkisábyrgð á Icesave-samningnum.

[15:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að ríkisstjórnin þarf að átta sig á tvennu í þessu máli. Það fyrra er að það dugar ekki að koma með málamyndafyrirvara við ríkisábyrgðina sem taka ekki að fullu tillit til þeirra athugasemda sem fram hafa verið færðar í málinu. Það dugar ekki að koma með athugasemdir, fyrirvara við ríkisábyrgð á þeim gríðarlegu skuldbindingum sem um er að ræða sem taka til að mynda ekki að fullu tillit til efnahagslegu óvissunnar.

Hitt atriðið er að það er kominn tími til að ríkisstjórnin fari að tala máli okkar Íslendinga við þá sem við höfum verið að semja við og við þá sem við höfum eitthvað undir í þessu máli í breiðu samhengi, hvort sem það er fjármögnun vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsprógrammsins, önnur lán sem við erum að ræða við Evrópusambandsríkin um (Forseti hringir.) eða hreinlega Bretar og Hollendingar sem ég efast um að hafi heyrt frá ríkisstjórninni í langan tíma.