141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom dálítið inn á það í ræðu minni hvað þetta er bagalegt umhverfi. Það er alveg sama hvort það er SA, ASÍ eða stórkaupendur að raforku, það er eins og ríkisstjórnin geti aldrei staðið við það samkomulag sem hún gerir. Það er mjög dapurlegt að þurfa að eyða kröftum hæstv. ríkisstjórnar og þeirra aðila sem um ræðir. Það er bara mjög dapurlegt og eins sá skattur sem gerður var að samkomulagi við stóriðjuna um að greiða fyrir fram 1.200 millj. kr. á ári og frumvarp var flutt um það. Ég man eftir þeirri umræðu. Það lá ekki einu sinni ljóst fyrir þá þegar mælt var fyrir því hvort það væri gengistryggt eða hvernig þetta væri. Þetta er auðvitað mjög bagalegt.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að setja eigi skatt á allar auðlindir landsins, ég er á þeirri skoðun. Við eigum að búa til svokallaðan auðlindasjóð, alveg sama hvort það er um heita vatnið, sjávarauðlindina eða hvað þetta allt saman er, við eigum að gera það og setja auðlindaskatta á. En aðalatriðið er og hættan er alltaf sú við skattlagningu, eins og hv. þingmaður benti á, að tilhneiging er til að hækka þá verulega. Eins líka þegar menn eru að setja tímabundna skatta eru þeir alltaf framlengdir. Það eru vissulega ákveðnar freistingar sem menn verða að reyna að standast og gera þá samkomulag, það er mikilvægt.

Ég hefði talið skynsamlegt að menn færu að setja þessa auðlindaskatta á og þeir væru notaðir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og við næðum einhverju samkomulagi. Menn keyra aldrei með því offorsi eins og gert er núna af núverandi hæstv. ríkisstjórn. Það er stríð við allt og alla og alltaf er haldið áfram á þeirri braut. Ég hefði talið skynsamlegra að fara í þá hluti sem ég nefndi, en hættan er klárlega sú, eins og hv. þingmaður spurði um og benti á, að stjórnvöld hafa tilhneigingu til að hækka skattana og vera með vitlausa efnahagsstefnu og framlengja það sem menn hafa sagt að væri tímabundið til að komast yfir versta hjallann, og haldið sé áfram og það framlengt inn í framtíðina. Það er auðvitað hættan við þá hluti sem við erum að ræða.