148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa undarlegu ræðu. Sem betur fer hefur maður bara eina mínútu núna því annars myndi ráðherrann örugglega verða enn þá pirraðri. Ég ætla að vitna í orð sem féllu hér á þingi í gær þegar hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, var í sinni ræðu, og svaraði hv. þm. Ólafi Ísleifssyni sem flutti algerlega magnaða ræðu í gær um fjármálaáætlun. Þar segir hv. þm. Bjarkey Olsen í inngangi sinnar ræðu eftir að hún gengur í ræðustól: Við ákváðum að leggja til hliðar ákveðin ágreiningsmál og reyna að byggja upp velferðarsamfélag. Þetta var í rauninni svarið við því þegar hv. þm. Ólafur Ísleifsson spurði um kjör eldri borgara og hvers vegna ekki væri gengið í að hækka persónuafsláttinn. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki þáttur í að byggja upp velferðarsamfélagið að láta fjármuni og bætur ganga til aldraðra og öryrkja með því að nýta t.d. í persónuafsláttinn? Er ráðherrann sammála því að þessu hafi verið fórnað í stjórnarmyndunarviðræðunum (Gripið fram í.)eins og mátti skilja á hv. þingmanni í gær?

Ég spyr hæstv. ráðherrann út í þetta.