148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Eins og hæstv. forsætisráðherra kom að í upphafi ræðu sinnar þóttist hún vita í hverja ég myndi höggva. Ég ætla ekki að valda henni neinum vonbrigðum þar, (Gripið fram í.) kem þó kannski pínulítið úr óvæntri átt.

Ég hef minnst á það einu sinni eða tvisvar í þessari pontu að ég hefði áhyggjur af útgjaldaaukningu ríkissjóðs og hvort innstæða verði fyrir þeim útgjaldaloforðum sem hér er verið að veita. Ég veit að hæstv. forsætisráðherra deildi þeim áhyggjum með mér fyrir tæpu ári þegar verið var að ræða ríkisfjármálastefnu þáverandi ríkisstjórnar. Það er áhugavert að bera saman þessar tvær stefnur. Hér hefur verið talað mjög digurbarkalega, getum við sagt, um hversu mikið hafi verið spýtt í. Við vorum líka talsvert stolt af þeirri ríkisfjármálaáætlun og töldum okkur vera að taka mjög duglega í útgjaldaaukningu, bæði í heilbrigðiskerfi og velferðarmálum. Það eru alveg sömu útgjaldaáherslur hlutfallslega hér og ég er ánægður með að sjá það. Það voru hins vegar talsvert betri hagvaxtarforsendur þá. Við töldum að við hefðum mögulega innstæðu fyrir þessu en hlutum nokkra gagnrýni fyrir að þetta væri mögulega óraunhæft, að við myndum ekki hafa efni á þessum útgjöldum.

Þegar við berum þessar tvær áætlanir saman í árslok 2022 gerir sú fjármálaáætlun sem hér liggur fyrir þinginu ráð fyrir heildarútgjöldum ríkissjóðs upp á 972 milljarða, samanborið við 959 milljarða hjá fyrri ríkisstjórn. Þetta er aukning upp á 13 milljarða. Þar af eru 4 milljarðar í hærri vexti því þessi ríkisstjórn ætlar að greiða skuldir hægar en sú fyrri og restin liggur í 7 milljarða veikleika sem kom í ljós í útgjöldum til málefna öryrkja og í lyfjakaupum og þurfti að taka á í fjáraukalögum á síðasta ári, þá sýnist mér standa munur þar á milli upp á 2 milljarða. Þetta er nú allt og sumt.

Munurinn er hins vegar sá að (Forseti hringir.) við erum hér ári síðar með veikari efnahagsforsendur, veikari hagvaxtarforsendur, til að standa undir þessum miklu útgjöldum. Forsætisráðherra, sem hafði áhyggjur af að við hefðum ekki efni á þessu þá, kemur hins vegar fram með mjög sambærilega áætlun nú við lakari efnahagsskilyrði og lofar til viðbótar 25–30 milljarða skattalækkun. (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég: Hvar eru áhyggjurnar af efnahagsforsendum þessarar áætlunar nú?