148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:46]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta svar. Það er rétt, ég hef ekki lesið margar fjármálaáætlanir áður, en ég fagna því að þetta sé komið á þó þennan veg og batnandi mönnum er best að lifa.

Mig langar í seinni ræðu minni að minnast á nokkur atriði úr mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, það er stórt og erfitt yfirferðar. Mikil atvinnuuppbygging hefur verið í kjördæminu, t.d. á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og það er gleðilegt. Þessi atvinnuuppbygging kallar á meiri menntun og þá oftar í iðn- og tækninámi. Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði hefur sinnt m.a. fjarmenntun sem nýtist að hluta til Vestfirðingum ágætlega, þótt það sé ekki eiginlegt iðnnám. Ég veit að hæstv. ráðherra er áhugasamur um þessi mál og hefur talað um uppbyggingu á iðn- og tækninámi.

Áfram í Norðvesturkjördæmi. Bændaskólinn á Hvanneyri hefur átt undir högg að sækja og á tímabili stóð til að loka honum (Forseti hringir.)en sem betur fer var því afstýrt. Mig langar að spyrja ráðherrann: Er eitthvað að frétta af framtíðaráformum (Forseti hringir.)um þann ágæta skóla?