151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[17:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps sem skipaður var í september 2019 en í starfshópnum voru fulltrúar frá heilbrigðisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Sjúkratryggingum Íslands, Vinnueftirlitinu og Tryggingastofnun ríkisins.

Í lögum um slysatryggingar almannatrygginga er kveðið á um að lögin skuli endurskoða innan tveggja ára frá gildistöku þeirra en lögin tóku gildi 1. janúar 2016 og endurskoðun því tímabær. Nauðsynlegt er að gera breytingar á lögunum til að skýra réttarframkvæmd, skjóta styrkari stoðum undir reglugerðir og draga úr takmarkatilvikum. Lögin byggjast að einhverju leyti á gamalli framkvæmd og ýmis atriði í þeim hafa verið gagnrýnd á undanförnum árum. Í þessu samhengi má meðal annars nefna þá tengingu sem enn er milli slysatrygginga almannatrygginga og bóta lífeyristrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar. Sjúkratryggingar Íslands tóku við framkvæmd slysatrygginga almannatrygginga árið 2008 þegar stofnunin var sett á fót. Tryggingastofnun sér þó enn um að greiða mánaðarleigu út um örorkubætur þar sem slysaörorka hefur verið metin 50 stig eða hærri og dánarbætur. Æskilegra væri að Sjúkratryggingar Íslands færu alfarið með málaflokkinn.

Í frumvarpinu er lögð til rýmri skilgreining á slysi. Gildandi lög gera ráð fyrir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans. Lagt er til að skýringunni verði breytt á þá leið að með slysi verði átt við skyndilegan óvæntan atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans. Orðinu „utanaðkomandi“ er því breytt í „óvænt“.

Verði frumvarpið samþykkt mun breytingin verða til þess að slys sem rekja má til skyndilegra áverka vegna ofreynslu á líkama eða slæmrar vinnuaðstöðu falla undir slysatryggingar almannatrygginga, t.d. þegar þungri byrði er lyft eða ýtt. Slík slys hafa ekki verið talin bótaskyld á grundvelli gildandi laga.

Rétt er að taka fram að þrátt fyrir að skilgreining slysahugtaksins sé rýmkuð með fyrrgreindum hætti er eftir sem áður skilyrði bótaskyldu að tjón verði rakið til tiltekins og afmarkaðs tilvik sem verður skyndilega. Þannig munu áfram falla utan slysahugtaksins áverkar sem má rekja til langvarandi eða skammvinns álags á stoðkerfi og ekki verða raktir til neins afmarkaðs atviks. Jafnframt falla utan slysahugtaksins veikindi eða áverkar sem koma fram þegar einstaklingur er staddur í vinnu eða við aðrar aðstæður þar sem trygging samkvæmt lögunum á við en tengjast ekki framkvæmd verks eða skilyrðum sem voru fyrir hendi.

Lagðar eru til breytingar á 5. gr. laganna um leiðir til og frá vinnu þannig að tryggingavernd nái til nauðsynlegra ferða á eðlilegri leið til og frá vinnu. Skilyrði um eðlilega leið er þannig bætt við ákvæði gildandi laga en með þeirri viðbót er hugsunin að skjóta fyllri lagastoð undir framkvæmd þar sem einungis ferðir á því sem næst beinni leið milli heimilis og vinnustaðar hafa verið felldar undir tryggingaverndina. Bótaskyldu vegna slysa í verulegum útúrdúrum í slíkum ferðum hefur þannig verið synjað.

Lagt er til að bætt verði við 3. mgr. 5. gr. laganna heimild til að fella niður eða takmarka bótarétt vegna eigin sakar hins slasaða. Gert er ráð fyrir að reglunni verði beitt í undantekningartilvikum þegar slys verður af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Má þar helst nefna slys þar sem sá slasaði er undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna sem hefur ótvíræð áhrif á færni viðkomandi einstaklings.

Í frumvarpinu er lagt til að markmiðs- og gildissviðsákvæðum laganna verði breytt svo að skýrt komi fram að tryggingavernd samkvæmt lögunum nái einnig til bótaskyldra atvinnusjúkdóma. Enn fremur er lagt til að við lögin bætist ný grein þar sem atvinnusjúkdómar eru skilgreindir í fyrsta skipti í lögunum sem sjúkdómar sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi. Er þannig lögð áhersla á að orsakasamband við vinnu liggi fyrir. Þessi skilgreining er í samræmi við a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 540/2011 um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma. Sú skilgreining byggist m.a. á viðmiðum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og skilgreiningu Evrópusambandsins á því hvað teljist til atvinnusjúkdóma.

Loks er lagt til að skýrt verði í lögunum að öll ákvæði þeirra sem snúa að slysatryggingum eigi við um bótaskylda atvinnusjúkdóma eftir því sem við getur átt, en það er í samræmi við gildandi framkvæmd.

Í lögunum er ákvæði um atvinnusjúkdóma en þar segir að ákveða skuli með reglugerð að tilteknir atvinnusjúkdómar skuli vera bótaskyldir. Slík reglugerð hefur aldrei verið sett og því hefur ekki að öllu leyti verið skýrt til hvaða sjúkdóma tryggingin nær. Sjaldgæft er að sótt sé um bætur vegna atvinnusjúkdóma til Sjúkratrygginga Íslands en mögulegt er að framangreindar breytingar muni auka þekkingu á réttindunum og verði til þess að umsóknum fjölgi. Verði frumvarpið að lögum verður samhliða breyttri löggjöf sett reglugerð með yfirliti yfir bótaskylda atvinnusjúkdóma.

Lagt er til í 11. gr. frumvarpsins að bætur fyrir varanlegt líkamstjón samkvæmt lögunum verði miskabætur samkvæmt skaðabótalögum, nr. 50/1993. Örorkubætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga eru bætur fyrir svokallaða læknisfræðilega örorku. Ekki hefur verið gerð sérstök grein fyrir því um hvers kyns örorku er að ræða í lögunum eða skýringartexta við þau. Ljóst er þó varanleg læknisfræðileg örorka byggist á læknisfræðilegu mati þar sem metin er líkamleg og eftir atvikum andleg skerðing á færni einstaklings þar sem allir eru metnir eftir sömu forsendum. Fjárhæð bótagreiðslna fyrir varanlega læknisfræðilega örorku samkvæmt gildandi lögum tekur mið af upphæð örorkubóta lífeyristrygginga almannatrygginga en í reglugerð nr. 187/2005 má finna óskýra reiknireglu um eingreiðslumat bóta fyrir varanlega læknisfræðilegu örorku.

Með hliðsjón af framangreindu er lagt til að í stað þess að miða við varanlega læknisfræðilega örorku og greiða bætur samkvæmt reiknireglu reglugerðar um eingreiðslu örorkubóta verði ákveðið að bæta varanlegt líkamstjón vegna bótaskyldra slysa með miskabótum samkvæmt skaðabótalögum. Bætur fyrir varanlegan miska samkvæmt skaðabótalögum eru að jafnaði hærri en bætur fyrir læknisfræðilega örorku samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og er því um réttarbót að ræða. Þannig myndi gilda um bótagreiðsluna skýr og þekkt reikniregla skaðabótalaga auk þess sem nafn bótagreiðslunnar gæfi til kynna að um væri að ræða bætur fyrir líkamstjón án þess að tekið væri tillit til fjárhagslegs tjóns. Mat á varanlegum miska og varanlegri læknisfræðilegri örorku er að öðru leyti svo líkt að breytingin er ekki líkleg til að valda vandkvæðum í framkvæmd.

Samkvæmt gildandi lögum er stór hluti bóta slysatrygginga almannatrygginga greiddur mánaðarlega, þ.e. bætur fyrir læknisfræðilega örorku sem metin er 50 stig eða hærri og dánarbætur. Þessar mánaðarlegu greiðslur eru greiddar af Tryggingastofnun, samanber 3. gr. laganna. Um er að ræða fyrirkomulag sem á rætur sínar að rekja til þess er slysatryggingar almannatrygginga heyrðu undir Tryggingastofnun eða til ársins 2008. Þar sem þessar mánaðarlegu greiðslur eru að sumu leyti sambærilegar lífeyrisgreiðslum á grundvelli laga um almannatryggingar og voru greiddar úr sama greiðslukerfi var tekin ákvörðun um að halda því fyrirkomulagi að Tryggingastofnun greiddi þær út eftir að Sjúkratryggingar Íslands voru settar á fót og tóku við málaflokknum. Þetta fyrirkomulag er þó ógagnsætt auk þess sem það veldur óþarfa flækjum við færslu bókhalds milli tveggja stofnana sem heyra hvor undir sitt ráðuneyti.

Í frumvarpinu er lagt til að allar bætur laganna verði eingreiðslubætur sem greiðist af Sjúkratryggingum Íslands. Er litið til þess að miskabætur samkvæmt skaðabótalögum eru ávallt eingreiðslubætur en einnig þess að það fyrirkomulag að bætur slysatrygginga almannatrygginga geti verið á formi mánaðarlegra lífeyrisgreiðslna sé arfur frá fyrri tíð þegar alvarleg slys voru tíðari, en mikill árangur hefur náðst í að draga úr fjölda slíkra slysa.

Breytingin færir bætur slysatrygginga nær bótum vátryggingafélaga vegna líkamstjóns og gerir Sjúkratryggingum Íslands kleift að loka bótamálum sem stofnunin hefur til meðferðar. Lagt er til að þessari breytingu fylgi ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir að þeir einstaklingar sem fá mánaðarlega greiddar dánarbætur eftir andlát maka fái eftirstöðvar bótanna greiddar sem eingreiðslu. Lagt er til að ákvæði um barnalífeyri vegna andláts foreldris verði ekki haldið í lögunum enda má sækja sambærilegan rétt vegna andláts foreldris til Tryggingastofnunar ríkisins óháð því hvort slys olli dauða eða ekki.

Enn fremur er lagt til að þeir sem öðlast hafa rétt til mánaðarlegra lífeyrisgreiðslna vegna varanlegs líkamstjóns, nú varanlegrar læknisfræðilegrar örorku, geti óskað eftir því að fá örorkumat sitt gert upp í formi eingreiðslu og ljúki þannig greiðslu bóta vegna slyssins frá Sjúkratryggingum Íslands. Framangreind breyting er liður í því að aðskilja bótagreiðslur slysatrygginga almannatrygginga frá Sjúkratryggingum Íslands frá bótum lífeyristrygginga almannatrygginga frá Tryggingastofnun og er þar af leiðandi til einföldunar á bótakerfinu.

Virðulegi forseti. Að lokum er rétt að nefna að fyrir utan breytingar á ákvæðum laganna sem þykja úreld er lagt til að tengingu bóta samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga við lög um almannatryggingar verði slitið. Þannig falli niður ákvæði um að bætur samkvæmt lagabálkunum tveimur fari ekki saman. Í því felst að örorkumat sem og endurhæfingarmat hjá Tryggingastofnun ríkisins kæmi eftir breytinguna ekki í veg fyrir rétt einstaklings til þess að fá mat á varanlegum miska, nú varanlegri læknisfræðilegri örorku, vegna bótaskylds slyss. Örorkumat, endurhæfingarmat eða ellilífeyrir frá Tryggingastofnun kæmi heldur ekki í veg fyrir rétt til fullra slysadagpeninga vegna bótaskylds slyss, öfugt við það sem nú er. Í breytingunni myndi einnig felast að miskamat vegna bótaskylds slyss, nú mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku, hefði ekki áhrif á hlutfall örorkulífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar hjá Tryggingastofnun ríkisins, líkt og nú er.

Það að eingreiðslubætur slysatrygginga skerði hlutfall örorkulífeyrisgreiðslna byggist á gamalli framkvæmd sem átti betur við þegar um einn og sama lagabálk var að ræða, svo og þegar sama stofnunin sá um að annast greiðslu bótanna. Reglan var sett í lög á þeim tíma þegar algengara var en nú að slys leiddu til verulegs líkamstjóns eða jafnvel dauða en eins og áður hefur komið fram hefur alvarlegum slysum sem valda miklu líkamstjóni fækkað verulega á undanförnum árum. Má draga í efa sanngirni þess að einstaklingur þurfi að þola skerðingu á örorkubótum vegna heilsubrests sem er alls ótengdur slysi sem viðkomandi hefur áður fengið greiddar bætur fyrir samkvæmt lögunum. Um er að ræða ólík réttindi sem byggjast á ólíkum grunni og er því lagt til að réttur til örorkubóta samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga hafi ekki áhrif á rétt örorkubóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og öfugt. Má í því sambandi benda á að bætur vegna líkamstjóns vegna slyss frá vátryggingafélögum hafa hvorki áhrif til skerðingar á lífeyrisréttindum samkvæmt lögum um almannatryggingar né samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga.

Þá er einnig lagt til að eingreiðsla örorkubóta vegna bótaskylds slyss muni ekki lengur skerða slysadagpeninga eða sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar vegna síðara slyss eða veikinda. Samkvæmt gildandi lögum skerðast báðar tegundir dagpeninga vegna síðara atviks ef einstaklingur hefur einhvern tíma fengið eingreiðslu vegna slyss og sanngirnisrök liggja til þess að sú tenging verði felld úr lögum. Tilvikin eru tiltölulega fá ár hvert og viðbótarkostnaður lágur.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins sem hér er til umræðu og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.