Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:31]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í þessari viku tilkynnti franska ríkisstjórnin að hún ætli að tryggja ungmennum 18–25 ára ókeypis smokka. Það gerist í kjölfar þess að ríkisstjórnin hafði tryggt konum undir 25 ára ókeypis getnaðarvarnir. Það er nefnilega stefna frönsku ríkisstjórnarinnar að ekkert ungmenni eigi að þurfa að sleppa notkun getnaðarvarna sökum kostnaðar. Þetta er ekki einungis gert til að sporna við þungun ungra einstaklinga sem vilja ekki eignast börn eða telja sig ekki tilbúna til barneigna strax, þetta er einnig árangursríkasta aðgerðin til að sporna gegn dreifingu kynsjúkdóma. Þetta er stefna Frakklands. En af hverju er þetta ekki stefna Íslands líka? Við höfum burði til að vera leiðandi ríki í kynheilbrigði en tölfræðin hefur sýnt andstæða vegferð hér á landi. Kynheilbrigði er lýðheilsumál, mörg ungmenni stunda kynlíf og við getum ekki breytt því en við getum hvatt þau til að gera það á heilbrigðan og skynsaman máta. Nýlegar kannanir hafa sýnt að notkun getnaðarvarna meðal barna og ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku fari minnkandi. Það er m.a. af fjárhagslegum ástæðum. Við eigum að tryggja ungu fólki þann kost að geta notað getnaðarvarnir sama hvað. Því hef ég lagt tvívegis fram þingsályktunartillögu um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Þetta er mikilvægt lýðheilsu- og forvarnamál. Með því að tryggja ungu fólki ókeypis getnaðarvarnir getum við unnið gegn útbreiðslu kynsjúkdóma og tryggt að ungt fólk geti stuðlað að kynheilbrigði og komið í veg fyrir óskipulagðar barneignir án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Í þessu tilviki væri mjög sniðugt að gera eins og Frakkland.