Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:36]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir góða ræðu varðandi þetta mikilvæga mál sem við erum að ræða hér og fyrir að koma inn á almannatryggingakerfið í heild sinni og þetta óréttlæti sem fólkið í þessu kerfi hefur orðið fyrir þegar lögin voru sett hreinlega. Ég staldraði hins vegar mikið við þann hluta ræðu hv. þingmanns þar sem hann kom inn á tilmæli eða fyrirmæli umboðsmanns Alþingis. Nú var komist að niðurstöðu í Hæstarétti varðandi skerðingu á örorkubótum, sem taldist vera ólögleg, væntanlega fordæmisgefandi dómur og umboðsmaður Alþingis hefur líka komist að niðurstöðum sem ættu að teljast vera fordæmisgefandi niðurstöður, fordæmisgefandi stjórnvaldsákvarðanir hvað varðar t.d. skerðingu á framfærslu þeirra sem reiða sig á almannatryggingakerfið. Ég tel að við hér á Alþingi sem mótum lögin séum ekki nógu dugleg að líta til fordæmisgefandi niðurstaðna, hvort sem þær eru frá Hæstarétti, umboðsmanni Alþingis, þess vegna Tryggingastofnun ríkisins, virðulegi forseti, þegar kemur að því að sjá til þess að réttindi þeirra sem reiða sig á almannatryggingakerfið séu virt. Nú hefur hv. þm. Eyjólfur Ármannsson oft komið inn á það að rétturinn til að tryggja veiku fólki aðstoð vegna sjúkleika eða örorku er tryggður í 76. gr. stjórnarskrárinnar og við erum einfaldlega ekki að því.

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að athuga hvort hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni þætti við nógu dugleg að fara eftir fordæmisgefandi niðurstöðum þegar kemur að ákvörðunum okkar um almannatryggingakerfið.