138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég er á áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar með fyrirvörum og ég ætla að útlista þá fyrirvara hér og nú.

Í fyrsta lagi varðar fyrirvari minn umræddan flýti á meðferð frumvarpsins. Það er alveg rétt, menn fengu þrjá daga til að gefa álit sitt á frumvarpinu, hagsmunaaðilar í samfélaginu. Það er allt of lítill tími. Enn og aftur, eins og í því máli sem við ræddum hér áðan varðandi almannatryggingar, er ástæða til að gagnrýna þetta. Það má ekki verða viðvarandi venja í þinghaldinu að mál af þessu tagi sem ættu fyrir löngu að vera komin inn í þingið — það er engin ástæða til þess að þetta mál eigi að vera með einhverjum flýti, það má ekki verða rauður þráður að mál af þessu tagi komi hingað með engum fyrirvara og dembist yfir þingheim og hagsmunaaðila. Það leiðir til vondrar löggjafar og því megum við ekki við.

Fyrirvari númer tvö varðar námsmenn. Ég styð 5. gr. frumvarpsins, um það að námsmenn í námsleyfi á sumrin fái ekki framfærslu sína af atvinnuleysistryggingakerfinu, enda eru þeir ekki í virkri atvinnuleit, þeir eru enn þá í námi. Fyrirvarinn lýtur að því að samt sem áður verði að tryggja þessum hópi framfærslu. Ef hann fær ekki sumarvinnu til þess að dekka þessa þrjá mánuði sem hann er ekki á námslánum verður einhvern veginn að mæta þeirri framfærsluþörf. Ég held að hækkun framfærslugrunns námsmanna upp í 120 þús. kr., eða hvað það var, sé ekki nóg til að mæta fjárþörf námsmanna ef þeir fá ekki vinnu á sumrin. Það verður að taka á fjárþörf námsmanna á sumrin ef þeir fá ekki vinnu innan þess framfærslukerfis sem gildir um námsmenn, sem er auðvitað Lánasjóður íslenskra námsmanna.

Fyrirvari minn lýtur að því að farið verði í það og ég hef heyrt ávæning af því að það samráðsferli sé til staðar og sé hafið við LÍN — að það verði sem sagt tryggt að LÍN taki á þessari framfærsluþörf námsmanna sem fá ekki vinnu á sumrin, t.d. með því að opna fyrir heimildir til láns frá LÍN í 12 mánuði, hugsanlega með einhverjum skilyrðum. Ég held að það sé rétt nálgun á stöðu námsmanna, að meginreglan sé sú að þeir þiggi framfærslu sína frá Lánasjóði íslenskra námsmanna á meðan þeir eru í námi en þá þarf að gera breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna og það þarf að ganga í það af röggsemi.

Ég tel líka mikilvægt að vakta þetta ákvæði með það að menn geti fengið atvinnuleysisbætur ef þeir eru í 10 námseiningum, en hins vegar fái þeir ekki námslán nema þeir séu, ég held að það sé rétt, með 20 námseiningar. Þannig að menn geta lent á milli skips og bryggju í þessu kerfi, eiga hvorki heima í atvinnuleysisbótakerfinu né námslánakerfinu. Meiri hluti nefndarinnar, með mig innanborðs, gerir ákveðna breytingartillögu hvað þetta varðar þannig að Vinnumálastofnun fái heimild til þess að leggja mat á einstök tilfelli svo að mögulegt sé fyrir Vinnumálastofnun að veita atvinnuleysisbætur ef fólk er að leita sér að hlutanámi í sinni bágu stöðu og falli ekki milli tveggja kerfa. Þetta tel ég mjög mikilvægt.

Þriðji fyrirvarinn varðar boðaðar vinnumarkaðsaðgerðir. Það varðar ekki síst þetta sem ég er að segja um námsmenn. Ef við ætlum að taka námsmenn af atvinnuleysisbótum á sumrin verða að fylgja einhverjar vinnumarkaðsaðgerðir þeim til handa þannig að þeir lendi ekki framfærslulausir á sumrin og vinnumarkaðsaðgerðir séu líka til þess að tryggja námsmönnum vinnu á sumrin. Svo eru náttúrlega boðaðar vinnumarkaðsaðgerðir fyrir ungt fólk 18–25 ára sem hefur fallið úr námi. Þessar aðgerðir hafa verið boðaðar en við eigum enn eftir að sjá þær. Ég styð frumvarpið í þeirri trú að þær vinnumarkaðsaðgerðir fari að líta dagsins ljós og að þær séu metnaðarfullar.

Ég tel að breytingar sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu séu til bóta. Þar á meðal eru breytingar á svokölluðum biðtímaákvæðum sem ég held að hafi ekki verið nægilega rökstuddar í frumvarpinu. Þess vegna gerir nefndin það að tillögu sinni að þeir liðir frumvarpsins verði einfaldlega kallaðir til baka og þeim alla vega frestað. Ef þessir liðir frumvarpsins færu í gegn, þeir liðir frumvarpsins sem varða biðtíma á atvinnuleysisbótum, held ég að sterkar röksemdir séu fyrir því að það mundi leiða til verulegs kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Ég ítreka því það sem kom fram í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur hér áðan að breytingar sem nefndin leggur til á frumvarpinu munu leiða til þess að kostnaðarauki á sveitarfélögin verði miklu minni en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur reiknað með. Það tel ég að sé mjög brýnt og mikilvægt mál. Áætlað er að spara 370 milljónir í atvinnuleysistryggingakerfinu með því að taka námsmenn af atvinnuleysisbótum á sumrin og það er mikilvægt að þessi peningur lendi ekki að fullu á sveitarfélögunum.

Hér er verið að herða ýmis viðurlög. Heimild er til þess að kalla atvinnuleitendur inn með mjög skömmum fyrirvara. Það er mjög mikilvægt að Vinnumálastofnun hafi heimild til þess að athuga hvort fólk sé raunverulega í virkri atvinnuleit og hvort fólk sé statt á landinu. Við höfum fengið fullvissu fyrir því að þetta ákvæði, þetta tól, verði notað af hófsemd og yfirvegun og ákvæði um það að tilkynna beri um tilfallandi vinnu samdægurs. Ég held að þetta sé mikilvægt tól fyrir Vinnumálastofnun.

Varðandi viðurlög við því að gefa Vinnumálastofnun rangar upplýsingar, vera sem sagt í vinnu, svartri atvinnustarfsemi, og þiggja bætur á meðan — ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals þess efnis að það er mjög alvarlegt ef fólk gerir slíkt. En ég skil það svo að við séum að herða viðurlög við þessu miðað við það hvernig lögin eru núna. Eins og lögin eru núna missir fólk rétt til atvinnuleysisbóta í tvö ár ef það verður uppvíst að þessu. Í mínum huga þýðir það bara það að þetta fólk heldur áfram að vinna svart eða hvað það er sem það var að gera. Svo eru líka í núgildandi lögum ákvæði um það að fólk eigi að endurgreiða bæturnar með 15% álagi. Ég held að það sé nokkuð ríflegt, sérstaklega fyrir fólk sem er í mjög slæmri stöðu. Bæturnar eru svo aðfararhæfar og ef um stórfelld svik er að ræða er það lögreglumál.

Eins og frumvarpið lítur út núna er gert ráð fyrir að fólk sem verður uppvíst að því að gefa Vinnumálastofnun rangar upplýsingar hvað þetta varðar, lýgur til um vinnu sína, missi einfaldlega réttinn til atvinnuleysisbóta og verði að vinna í 12 mánuði til að vinna sér þann rétt aftur. Þetta eru nokkuð hörð viðurlög við bótasvikum og auk þess yrði viðkomandi gert að endurgreiða bæturnar með 15% álagi. Þannig að fólk beinlínis missir áunninn rétt og verður að vinna sér hann inn aftur. Það hefur líka þá kosti að fólk verður að koma úr fylgsnum svartrar atvinnustarfsemi og upp á yfirborðið og gefa tekjur fram til skatts til þess að vinna sér inn rétt til atvinnuleysisbóta. Þetta er því hvati gegn svartri atvinnustarfsemi þegar þetta er sett svona fram. Þannig að ég styð þetta. Ég styð það heils hugar að taka þak hlutabóta niður um 100 þúsund eins og breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir. Ég held að lagt hafi verið af stað í frumvarpinu með ansi rausnarlegt þak á hlutabótum miðað við margt annað.

Að síðustu styð ég það að felldur verði brott úr frumvarpinu liður sem lýtur að breytingu á félagsþjónustu sveitarfélaga, að sveitarfélögin megi skilyrða aðstoð sína. Eins og kemur fram í nefndarálitinu hafa sveitarfélögin ákveðnar heimildir í þessum efnum. Þess þarf líka að gæta að það er stjórnarskrárbundinn réttur þjóðfélagsþegnanna að fá framfærslu einhvers staðar. Það kann að vera, meira að segja er það verulega líklegt, að ákveðinn hópur Íslendinga þrífist einfaldlega illa í vinnu. Sá hópur þarf að fá sína framfærslu einhvers staðar og þann stjórnarskrárbundna rétt, þegar svo illa er komið, er afskaplega erfitt að skilyrða.