148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að mínu mati er núverandi fyrirkomulag á veiðigjöldum meingallað. Hún nefnir réttilega ýmsa þætti sem snúa að því með hvaða hætti rekstraraðilum er kleift að snúa niðurstöðum ársreikninga sér í hag, t.d. hvernig hagnaðurinn er fundinn í lokin. Það eru ákveðnir erfiðleikar við að skattleggja lóðrétt samþætt fyrirtæki. Þetta eru allt saman þættir sem veiðigjaldsnefndin, sem er lögskipuð nefnd sem fer með álagningu veiðigjaldanna, hefur haft til umfjöllunar í sinni vinnu.

Í kjölfarið á framlagningu þingmálaskrár óskaði ég eftir því við veiðigjaldsnefndina að hún yfirfæri álagningu veiðigjalda, skoðaði kosti og galla við að færa álagninguna nær í tíma, gera hana einfaldari og gegnsærri. Jafnframt hefur legið fyrir að afkoma útgerðarinnar hefur snarversnað miðað við úttekt Deloitte, eins og ég gat um í fyrra svari. Talan í fjármálaáætluninni er áætlun. Það liggur ekki fyrir neitt frumvarp sem leiðir þessa niðurstöðu fram. Það kemur þá inn í þingið þegar þar að kemur. Ég boðaði á þingmálaskránni að fram kæmi frumvarp um þetta. Í fjármálaáætluninni er getið um að yfir standi vinna við endurskoðun veiðigjaldanna.

Með hvaða hætti þetta er unnið? Ég geri bara ráð fyrir að þegar fram koma frumvörp, hvort heldur er um veiðigjöld eða önnur mál sem snerta (Forseti hringir.) sjávarútveginn, verði þau sett í umsagnarferli, kynnt fyrir þinginu og nefndin vinni úr því.