149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er átakanlegt að fylgjast með ástandi mála í Bretlandi um þessar mundir þar sem ríkisstjórnin heyktist á því að láta fara fram atkvæðagreiðslu um samninginn við Evrópusambandið um útgöngu Breta úr ESB. Theresa May mátti í staðinn ganga svipugöngin um meginland Evrópu, áþekka liðsbón Skarphéðins í Njálu þegar hann fór milli höfðingja til að hljóta þar enga áhættu. Hennar bíður að takast nú á við vantrauststillögu í þinginu í kvöld.

Bretar vita ekki sitt rjúkandi ráð. Smám saman virðist vera að renna upp fyrir þeim að þeir hafi látið öfgaöfl ráða ferðinni í Brexit. Þeir hafa freistast til að ljá eyra við áróðri þeirra sem ala á ótta og andúð á öðrum, tala gegn samráði og samvinnu en aðhyllast átök og ofstopastjórnmál þar sem annar aðilinn á alltaf að fara með sigur af hólmi en hinir séu þá sigraðir.

Því tímabili Stóra-Bretlands lauk reyndar fyrir fullt og allt eftir síðustu heimsstyrjöld, en sumir virðast ekki hafa horfst í augu við það enn. Þau öfl sem hafa ráðið ferðinni láta sér í léttu rúmi liggja lífskjör almennings eða stöðu atvinnulífsins eða jafnvel væntanlega stöðu þjóðarbúsins. Segja má að Bretar hafi hag af samningaviðræðum sínum við Evrópusambandið með því að hóta stórfelldum refsiaðgerðum, en þær refsiaðgerðir beinast að þeim sjálfum. Þeir hóta Evrópusambandinu að beita sjálfa sig stórfelldum refsiaðgerðum. Þeir eru í grimmri sókn að eigin marki. Þeir eru þjóð í umsátri eigin ranghugmynda. Þær ógöngur sem blasa við Bretum ættu að vera okkur víti til varnaðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)