Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Lenya Rún Taha Karim) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir síðara andsvarið. Ég ætla að taka undir það með honum að þetta lítur út fyrir að vera vanfjármagnað frumvarp. Hv. þingmaður er svolítið duglegur að vísa í 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem stendur að veita þurfi fólki rétt til aðstoðar, fólk eigi rétt til aðstoðar vegna sjúkleika eða örorku. Ég held að þessir NPA-samningar falli hreinlega þar undir. Eins og ég kom inn á í ræðu minni fyrr í kvöld, ekki í andsvörum heldur í ræðunni minni, þá er verið að kvótasetja mannréttindi. Þessir NPA-samningar eru bara hreinlega mannréttindi. Þetta frumvarp er vissulega vanfjármagnað, ég get ekki séð betur, og mögulega er hægt að rökstyðja stjórnarskrárbrot. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma. En þetta er náttúrlega bara bagaleg staða, það að við séum komin hingað enn og aftur til að framlengja bráðabirgðaákvæði. Nú hafa nokkrir þingmenn bent á það að þetta frumvarp er vanfjármagnað og við erum að vanáætla fjármagnið sem fer í þessa samninga, sem mér þykir afskaplega miður.

En að seinni spurningu hv. þingmanns. Með vísan til 76. gr. stjórnarskrárinnar ætti umönnun sem fólk þarf á að halda ekki að vera gjaldsett. Sumt fólk er bara veikt og þarf á aðstoð að halda og ég veit ekki hvers vegna við segjumst vera velferðarríki en tökum samt kostnað fyrir umönnun fólks sem þarf verulega og virkilega á aðstoð að halda. En ég kemst ekki lengra með svarið en þetta, því miður.