154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Það er gott að við erum alla vega sammála um 1% til sveitarfélaganna. En, já, ég segi að ekkert hafi verið gert fyrir heimili í neyð vegna þess að neyðin er gríðarlega mikil og mér finnst ríkisstjórnin almennt séð vera í afneitun um hversu mikil hún er. Alltaf er öll hjálp bundin við að tala um þá verst stöddu sem hv. þingmaður gerði núna áðan. Þessi vandi er orðinn þannig í dag að það eru ekki bara þeir verst stöddu sem eiga í erfiðleikum heldur líka þau sem kannski mætti kalla hina svokölluðu millistétt, fólk sem er með meðaltekjur er komið í vandræði. Og ef fólk á meðaltekjum er komið í vandræði þá get ég varla ímyndað mér, eða ég reyndar veit sumt af því en það er varla hægt að ímynda sér vandræðin sem þau verst stöddu eru þá komin í. Sú hjálp sem hugsanlega hefur verið boðin er bara ekkert í samræmi við vandann, ekki í neinu samræmi við vandann. Þegar leiga er farin að telja 400.000 kr., algeng leiga 300.000–400.000 kr. á mánuði og fólk er með tekjur sem eru jafnvel bara rétt það og svo eru vextirnir og þeir eru líka búnir að vaxa sem þessu nemur — hvaða hjálp er þetta fólk að fá? Ef þingmaðurinn gæti veitt mér dæmi um það þá væri það gott. Og ef við komum að krónutöluhækkununum þá skulum við bara takast á við það þegar betur árar, hvernig við jöfnum það út.