132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 3.

[15:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér fundust svörin hjá hæstv. ráðherra vera svolítið loðin. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra eitthvað ákveðnara í þá átt að jafnvel stæði til að íhuga hvort ekki væri kominn tími til að móta opinbera málstefnu til framtíðar, hvort ekki væri ráð að ríkisstjórnin setti nú í gang einhverja vinnu til að fara yfir þessa hluti og athuga hvort það væri nú ekki ráð að veita t.d. meira fjármagn í íslenskuna, íslenskurannsóknir og íslenskukennslu. Við höfum fengið að vita, til að mynda í fjölmiðlum nú um helgina, að íslenskuskor háskólans er fjársvelt og að íslenskukennsla í framhaldsskólum hafi verið skert um 33% á innan við 10 árum. Þetta er á forsíðu Lesbókar Morgunblaðsins sem hæstv. ráðherra talaði hér um. Ef hæstv. ráðherra vildi koma hér upp öðru sinni og svara í raun og veru spurningunni: Er ekkert ákveðið í hendi hvað þetta varðar, hvað á að gera?