139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að ræða um það hér að hv. þm. Björn Valur Gíslason áttar sig ekki á hlutverki sínu, það kemur í rauninni virðulegum forseta ekki við. Virðulegi forseti á hins vegar að sjá til þess að við fáum svör við fyrirspurnum, en þar sem búið er að brýna fyrir okkur hv. þingmönnum að vera í jólaskapi og léttir ætla ég ekki að velta virðulegum forseta sérstaklega upp úr því að við fáum ekki svör, þó svo að ég hvetji hann til þess að sjá til þess að svo verði. Það er nefnilega þannig að á morgun, 16. desember, er hálfs árs afmæli svarleysis hæstv. forsætisráðherra út af kostnaði ríkissjóðs vegna sérfræðivinnu starfsmanna háskólanna. Og svona bara í anda jólanna ætla ég að fá að spyrja — ég er búinn að biðja svo oft um þetta svar — spyrja virðulegan forseta hvort það verði gert í tilefni dagsins því að ég held að þetta hljóti að vera algjört einsdæmi að þurfa að bíða (Forseti hringir.) í hálft ár eftir svari sem á að taka 10 virka daga að svara.