139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Þakka þér fyrir, frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Í fyrsta lagi langar mig að biðja hann að rifja upp kosningaloforð Samfylkingarinnar þegar hún lofaði skattalækkunum sem mest. Það var akkúrat, ef ég man rétt, í góðæri sem Samfylkingin fór fram og lofaði skattalækkunum af því að hv. þm. Helgi Hjörvar talaði áðan um að það hefði verið óráðsía að gera slíkt og hefði ekki átt að gera í góðæri. Voru þá kosningaloforð Samfylkingarinnar á þeim tíma einskis virði líkt sumum þeirra nú?

Hv. þingmaður talaði um að það væri algengt vegna þess að vinnulag væri eins og það er því stuðningur stjórnarflokkanna væri klár og ljós. Þá er ég að vitna til þess að þingmenn eru að fara að samþykkja fjárlagafrumvarpið í fyrramálið og greiða um það atkvæði þrátt fyrir að frumvörpin sem liggja að baki þeim reiknuðu tölum sem eru í fjárlagafrumvarpinu séu ekki komin úr nefndum. Það kann að vera, frú forseti, að þetta hafi alltaf verið gert og þetta sé allt í lagi. (Gripið fram í.) Hlýtur það ekki að teljast óeðlilegt að búið sé að ákveða frumvörp sem eru grundvöllur frumvarpsins sem við eigum að greiða atkvæði um, áður en reiknaðar tölur eru komnar inn í fjárlögin þó að þetta sé sitt lítið af hverju? Vegna þess að hingað til, frú forseti, hefur hæstv. ríkisstjórn ekki getað treyst 100% á stuðning sinna manna? Hvernig getur hv. þm. Helgi Hjörvar fullyrt að með frumvörpum sem liggja að baki þessum reiknuðu tölum í fjárlagafrumvarpinu sé fullur stuðningur ríkisstjórnarflokkanna?

Það er ljóst að hv. þm. Lilja Mósesdóttir styður ekki frumvarpið. Hv. þingmenn Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason hafa látið í ljós efasemdir um umrætt fjárlagafrumvarp. (Forseti hringir.) Hvernig getur hv. þingmaður fullyrt um stuðning stjórnarflokkanna við frumvörpin sem óafgreidd eru? Eru reiknaðar tölur að baki fjárlagafrumvarpinu?