140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við höfum í þrjú ár eða lengur rætt stöðu heimila og hversu brýnt væri að grípa til róttækra aðgerða til að ráða bót á skuldavanda þeirra og jafnframt að uppbygging í atvinnulífinu væri háð því að gripið væri til róttækra og skilvirkra aðgerða er varða skuldir fyrirtækja. Það hefur furðulítið gerst í því efni og ýmsir orðið til að benda ríkisstjórninni á hversu hættulegt það hefur reynst að sinna þessum málum ekki sem skyldi.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra brugðist við slíkum ábendingum á kunnuglegan hátt. Hagsmunasamtök heimilanna hvöttu hæstv. forsætisráðherra til að ráðast í almennar aðgerðir í skuldamálum heimila. Hæstv. forsætisráðherra lét þá skrifa fyrir sig skýrslu til að færa rök fyrir því hvers vegna það væri ekki hægt, bað Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að skrifa þá skýrslu og byggja hana á gögnum frá ríkisstjórninni, byggja hana á þeim gögnum sem ríkisstjórnin mataði Hagfræðistofnun á í stað þess að Hagfræðistofnun liti til frumgagna sem hún virðist auk þess ekki einu sinni hafa haft aðgang að.

Það er margt sérkennilegt í niðurstöðum Hagfræðistofnunar, eins og ýmsir hafa þegar bent á á undanförnum dögum. Þar má sérstaklega nefna Marinó G. Njálsson, sem hefur skrifað töluvert um þessa skýrslu og sett fram spurningar sem ég held að hæstv. forsætisráðherra, sem ber í raun ábyrgð á þessari skýrslu, verði að beita sér fyrir að fá svör við.

Í fyrsta lagi er mjög sérkennilegt að því sé haldið fram að svigrúm til niðurfærslu lána sé uppurið þar sem svo mikill kostnaður hafi fallið til vegna gengisbundinna lána sem dæmd voru ólögmæt. Með öðrum orðum er verið að segja að það svigrúm sem átti að vera til staðar til að færa niður lán heimilanna, verðtryggð lán ekki hvað síst, hafi allt farið í að bera tjón af því að gengisbundnu lánin voru dæmd ólögmæt. Nú lá það fyrir, áður en bönkunum var skipt upp, að gengisbundnu lánin kynnu að vera ólögmæt. Á það bentum við margoft í þinginu, framsóknarmenn, og að alls ekki mætti færa þessi lán yfir á fullu verði eða án þess að í afskriftum væri gert ráð fyrir því að lánin kynnu að verða dæmd ólögmæt. Að því var ekki hugað og nú ætla menn að nota það svigrúm sem átti að nýta til niðurfærslu annarra lána í þessar afskriftir af gengisbundnum lánum. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að vera sammála mér um að það sé óeðlilegt. Jafnframt er því haldið fram að töluvert hafi farið í 110%-leiðina og sértæka skuldaaðlögun. Það eru þá bara nokkrir milljarðar samanborið við hátt í 100 milljarða sem áætlað er að hafi farið í gengisbundnu lánin.

Annað sem vekur athygli er að samkvæmt skýrslunni er því haldið fram að gengisbundin lán hafi verið færð niður um 26,3%. Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra hafa gengisbundin lán hins vegar verið afskrifuð um meira en helming. Þarna er verulegur óútskýrður munur eins og reyndar í svo mörgu í þessari yfirferð.

Loks leggja skýrsluhöfundar lykkju á leið sína til að útskýra að ef menn ætli að ráðast í almenna leiðréttingu þá yrði það mjög dýrt — menn nefna töluna 200 milljarða og að ríkið hafi alls ekki efni á þeirri upphæð, ríkið mundi einfaldlega ekki ráða við það. Þá er áhugavert að setja þetta í samhengi við ummæli hæstv. forsætisráðherra, ekki hvað síst varðandi Icesave-kröfurnar, sem voru mjög lítill hluti af þessu, því að þar var um að ræða hreinar greiðslur úr landi í erlendri mynt. Hér er eingöngu um að ræða niðurfærslu lána innan lands svo að í samanburði hefði tjónið af Icesave-samningunum nú þegar verið orðið miklu meira en ef menn hefðu ráðist í þessa almennu niðurfærslu sem Hagfræðistofnun segir ríkið engan veginn hafa efni á. Telji hæstv. forsætisráðherra skýrsluna rétta þá staðfestir hún þrennt:

Í fyrsta lagi stórkostleg mistök ríkisstjórnarinnar við stofnun nýju bankanna þar sem ekki hafi verið nógu mikið svigrúm til afskrifta, ekki svigrúm í samræmi við þörfina.

Í öðru lagi mistök varðandi gengisbundnu lánin, að hafa ekki tekið tillit til þeirra aðvarana sem komu fram varðandi þau.

Í þriðja lagi að áform ríkisstjórnarinnar um samþykki Icesave hefðu sett Ísland í þrot því að hefði leiðrétting lána gert það þá hefðu Icesave-samningarnir svo sannarlega gert það.

Telji hæstv. forsætisráðherra skýrslu Hagfræðistofnunar rétta þá er hún mikill áfellisdómur yfir þessari ríkisstjórn.