143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

kjarasamningar og verðhækkanir.

[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það mundi gera þennan fyrirspurnatíma miklu gagnlegri og áhrifaríkari ef hv. þm. Árni Páll Árnason eyddi ekki alltaf megninu af tíma sínum í að ryðja út úr sér einhverri vitleysu sem síðan þarf að leiðrétta þannig að mönnum gefst ekki kostur á að svara spurningunni þegar hún loksins kemur. En það kom reyndar engin spurning í síðari ræðu hv. þingmanns þannig að ég get notað tækifærið til að árétta að heildaráhrifin af aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú, ólíkt aðgerðum síðustu ríkisstjórnar, ólíkt fjárlögunum sem voru samþykkt aftur og aftur á síðasta kjörtímabili, eru aukinn kaupmáttur fólks.

Þegar hv. þingmaður segir að núverandi ríkisstjórn geti ekki farið á undan með góðu fordæmi þá telur hann væntanlega að aukinn kaupmáttur sé ekki gott fordæmi sem skýrir hvers vegna síðasta ríkisstjórn, sem hv. þingmaður sat í, hagaði málum eins og hún gerði. Hún skerti kjör fólks ítrekað og hækkaði gjöld og þar með verðbólgu og þar með verðtryggð lán almennings í landinu. Það hefur þá væntanlega verið gott fordæmi af hálfu síðustu ríkisstjórnar.