150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið og held áfram með seinni spurninguna sem ég beindi til hennar. Þetta er vissulega stuttur tími en ég spyr í ljósi þess að ráðherra leggur mikið upp úr því að bætt sé í opinbera fjárfestingu: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera, hvað hyggst forsætisráðherra gera eða beita sér fyrir að verði gert til að efla fjárfestingu hjá einkageiranum, hjá einkafyrirtækjum? Er ekki kominn tími til að við skoðum það hvernig við getum létt undir með þeim fyrirtækjum sem í raun bera uppi atvinnulíf í landinu, t.d. með því að endurskoða skatta eða gjöld sem leggjast á atvinnulífið? Þurfum við ekki að búa þar til jákvæða hvata til að við getum undið ofan af atvinnuleysinu, til að við förum að sjá meiri framleiðni í landinu og getum brugðist þannig við þessari brekku sem við stöndum frammi fyrir? Það kom fram í fjölmiðlum í gær, held ég að hafi verið, frekar en fyrradag, að atvinnuleysi hefur ekki mælst jafn mikið í mjög langan tíma. Það er sérstaklega mikið meðal útlendinga og það er sérstaklega mikið á Suðurnesjum. Eitthvað þurfum við að gera til að bregðast við og við getum ekki eingöngu horft á það að ríkið fari að fjárfesta og þenjast út með einhverjum hætti. Við þurfum líka að horfa til einkageirans og því spyr ég ráðherra hvað við getum gert þar.