152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær kom út skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum. Í henni er gerð grein fyrir orkuþörf með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Einnig er farið yfir stöðuna á flutningskerfinu, stöðuna á orkumarkaði, framboð og eftirspurn raforku sem og hvernig fyrirséð er að þau mál geti þróast næstu mánuði og ár. Skýrslan er ítarleg og við lestur hennar má sjá að lögð er til grundvallar vinna sem fram kom í orkustefnu fyrir Ísland sem unnin var af þverpólitískri nefnd á síðastliðnu kjörtímabili. Þar segir að það sé mikilvægt markmið í baráttunni við loftslagsvána að orkuskipti fari fram í lofti, á láði og legi. Við á Íslandi höfum þá sérstöðu að nánast ekkert jarðefnaeldsneyti er notað við raforkuframleiðslu og húshitun. Það er öfundsverð staða sem okkur ber að viðhalda.

Virðulegur forseti. Til að geta staðið við háleit markmið okkar í loftslagsmálum verðum við virkilega að skoða aukna virkjunarkosti. Það er ekki bara að við verðum að auka framleiðslu á raforku heldur verðum við að bæta flutningsleiðir því flutningi á raforku er virkilega ábótavant á milli landsvæða, sérstaklega þegar við horfum til Vestfjarða og norðausturhorns landsins. Þegar horft er til kerfisáætlunar Landsnets er hún vissulega langtímaáætlun en styrking meginflutningskerfis á Vestfjörðum er í allt of fjarlægri framtíð. Þá er betra að huga að valkostum í virkjunum innan svæðis til að tryggja raforku á Vestfjörðum. Dreifikerfið á Vestfjörðum er á vegum Orkubús Vestfjarða. Átak hefur verið gert á undanförnum árum í endurnýjun þess. Þá hefur mikið verið lagt í jörðu og endurbætur hafa líka verið gerðar í tengslum við hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði. En það vantar rafmagn á svæðið. Það verður að auka raforkuframleiðsluna. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu og samfélaga og orkuskipti verði á svæðinu. Án hennar getur fjórðungurinn ekki tekið þátt í loftslagsmarkmiðum stjórnvalda.