139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er fljótsvarað: Ég tók þátt í því í þáverandi ríkisstjórn sem ég sat í að leggja fjárlagaramma um 5% niðurskurð í heilbrigðismálum, kortleggja hann eftir málaflokkum og ráðuneytum. Síðan fór málið í hefðbundna vinnu í ráðuneytunum. Ég þurfti að gefa fyrirmæli um eða setja upp hvernig við tækjum á niðurskurði í samgönguráðuneytinu, þau 10% sem þar voru, og senda til fjárlagaskrifstofu útfærðar tillögur. Sama gerði heilbrigðisráðuneytið. Ég hygg að þáverandi heilbrigðisráðherra hafi ekkert vitað hvernig ég ætlaði að útfæra niðurskurðinn í samgönguráðuneytinu og ég ekki heldur í heilbrigðisráðuneytinu. Svo getum við diskúterað hvort þetta séu eðlileg vinnubrögð, alveg eins og ég tel ekki eðlileg vinnubrögð að við afgreiðum fjárlög 16. desember, ég held að sá lokatími ætti kannski að vera 15. nóvember, en það er annar handleggur.

Þetta var einfaldlega þannig að kynninguna á útfærðum tillögum í heilbrigðisráðuneytinu fékk ég á sama tíma og hv. þingmaður, um leið og fjárlagafrumvarpið kom fram. Við getum svo, eins og ég segi, diskúterað hvernig það er.

Jú, hv. þingmaður er ánægður með tal mitt um hagvöxtinn. Ég hef áður sagt að við vinnum okkur ekki út úr kreppunni öðruvísi. Við göngum ekki mikið lengra í skattahækkunum eða niðurskurði og við munum ekki leysa atvinnumál 13.000 atvinnuleysingja með því að ráða fleiri til ríkisins, það er engin bót í því. Það er ekkert annað en aukin vinna og aftur aukin vinna, skapa þarf tækifæri til fjölgunar atvinnutækifæra.

Í dag var farið í aðgerð gagnvart skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Gerum okkur bara grein fyrir því að ef helmingur þeirra 6.000–7.000 fyrirtækja mundi hvert geta ráðið einn starfsmann í framhaldi af aðgerðinni yrðu það 3.500–4.000 störf, 1/3 af atvinnuleysinu plús annað sem við erum að tala um eins og í vegamálum, þá ákvörðun sem hefur verið tekin. Ég fagna því og þakka hv. þingmanni fyrir ánægjulegt samstarf í vor og sumar um útfærslu á þessum hugmyndum, þessu frumvarpi sem varð að lögum, vegna þess að þar stigum við (Forseti hringir.) stór skref, virðulegi forseti. Þetta mun hafa mikið að segja. Þúsundir ársverka munu skapast á næstu árum í atvinnugreininni.