144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir einlægar vonir hv. þingmanns um að lækkun efra þrepsins um 1,5 prósentustig muni skila sér til neytenda. Við höfum hins vegar tvö dæmi, annað stórt og hitt minna, um lækkun á virðisaukaskatti sem ég held að bæði hafi orðið í tíð hv. þingmanns. Ég hvet hann til þess að nota kvöldið áður en hann fer að sofa til þess að kynna sér hvernig það var. Það tókst nú ekki alveg nógu vel. En til langframa gerist það vonandi. Hins vegar voru þær upplýsingar sem þinginu bárust við umfjöllun málsins ekkert mjög upplífgandi. Þar kom algjörlega skýrt fram að t.d. þegar breytingar verða á gengi koma þær sem leiða til lækkunar seint og illa fram í neysluverði en þær sem leiða til hækkunar koma hins vegar örskjótt fram.

Af því að ég er byrjaður að gleðja hv. þingmann og hef sagt honum það hreinskilnislega að vitaskuld telji ég að þetta sé gott, þá tel ég að afnám almennra vörugjalda sé þó betra. Ég hef barist fyrir því árum saman og var m.a. í ríkisstjórn sem samþykkti að leggja í þann leiðangur en örlögin sveifluðu því máli á annan veg. Það breytir ekki hinu að mér finnst blóðugt að það skuli vera kostað með því að hækka matarskattinn um sennilega 7–7,5 milljarða. Hv. þingmaður hefði slegið sig til riddara bæði gagnvart mér og þjóðinni ef hann hefði tekið þátt í því með sínum flokki að gera þetta allt þrennt, láta matarskattinn vera óbreyttan og gera hitt tvennt. Það hefði ekki verið nokkur vandi miðað við þær tölur sem liggja í fjárlagafrumvarpinu að gera það.

Að lokum ætla ég að gleðja hv. þingmann með því að ég vil einfalda kerfið, samþykki ýmsar þær einfaldanir sem þar eru, hef lagt fram tillögu um eina (Forseti hringir.) með hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, en ég spyr: Af hverju eru menn ekki samkvæmir sjálfum sér? Af hverju taka menn(Forseti hringir.) þá ekki virðisaukaskatt af kvótaverslun?