144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég held að framsögumaður málsins fyrir meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur Blöndal, hafi orðað það svo þegar hann talaði fyrir nefndarálitinu að þetta væri nú ekki jafn skemmtilegt og virðisaukaskattsfrumvarpið þar sem matarskatturinn var hækkaður á okkur öll og bókaskatturinn hækkaður. En svo held ég að hann hafi bætt við, ég veit ekki hvort það var í sömu andrá eða annarri ræðu, að það væri auðvitað gott ef hægt væri að lækka tryggingagjaldið en það væri bara svo dýrt, það væri ekki hægt. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sagði úr þessum ræðustól að það væri svo dýrt ef menn vildu lækka tryggingagjaldið.

Ég hef svolítið velt fyrir mér tryggingagjaldinu og einmitt því á hvaða fyrirtæki það leggst. Tryggingagjald leggst þyngst á þau fyrirtæki sem ekki eru með mikla fjárfestingu, leggst hlutfallslega þyngst á þau fyrirtæki sem eru með háan launakostnað. Þess vegna hefði það til dæmis bætt stöðu nýsköpunarfyrirtækja, bókafyrirtækja, einyrkja, að lækka það vegna þess að allir þurfa að borga tryggingagjaldið.

Ríkisstjórn hefur hins vegar ákveðið að létta álögum af stórútgerðinni, það er hennar fyrsta verk, en lækkar svo tryggingagjaldið um 0,1% á ári og klípur þar að auki af gjaldinu þannig að það renni beint í ríkissjóð frekar en til þeirra verkefna sem eru flest og öll, held ég að megi segja, kölluð velferðarverkefni. Hún klípur af því sem rennur í sjóði eins og t.d. Fæðingarorlofssjóð og lætur það renna beint í ríkissjóð. Mér finnst þetta algjörlega lýsandi fyrir ríkisstjórnina. Alls staðar þar sem hún kemur að, virðulegi forseti, gefur hún minna til þeirra sem þurfa á því að halda og léttir byrðum af þeim sem eiga nóg. Það er bara þannig og það er sama hvar maður lítur í þau frumvörp sem tengjast fjárlagafrumvarpinu, 1. máli, sem er fjárlagafrumvarpið sjálft, 2. máli sem er virðisaukaskattsfrumvarpið og svo frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga. Þetta vildi ég sagt hafa. Ég undra mig á þeirri forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur þegar hún lækkar álögur á atvinnulífið; hún horfir til stórfyrirtækjanna, hún horfir til stórútgerðarinnar en lætur hin fyrirtækin gjalda þess, hækkar kostnað á bókaútgefendur, hækkar kostnað á þá sem fást við útgáfu tónlistar.

Við 3. umr. hafa verið gerðar þrjár breytingar, sýnist mér, frá því sem við ræddum í 2. umr. Út af fyrir sig eru þær allar til bóta, það er ekki spurning, en þær gætu virkilega verið til meiri bóta, þær ganga ekki nógu langt, alls ekki nógu langt. Fyrst ber að nefna hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Það átti að afnema á fjórum eða fimm árum. Nú er sem betur fer hætt við það og þakka skyldi maður, en það er bara spor því samt sem áður á að lækka þetta á næsta ári. Frá 1. júlí á framlagið að lækka í 26% og einnig að vera í 26% árið 2016, en það er þó ekki gengið alla leið og þakka skyldi þeim.

Síðan er annað atriði sem er líka vissulega til bóta, það er ákjósanlegt að viðhalda efnahagslegum hvata til að kaupa umhverfisvæna bíla, en framlengja á það ákvæði um eitt ár, sýnist mér, það er ágætt líka. Og svo í þriðja lagi er breyting á lækkun á vörugjaldi af bílaleigubílum, nú segir að markið verði sett við 750 þús. kr. í staðinn fyrir 500 þús. kr. Er það ekki rétt skilið hjá mér? En mér skilst að sú hugmynd að lækka þetta um 500 þús. kr. hafi bara komið á síðustu metrunum í umræðunni í nefndinni, og það er náttúrlega svolítið umhugsunarvert. Ég mundi líka segja, eins og komið hefur fram hjá ræðumönnum hér á undan, að það er umhugsunarvert að þegar um er að ræða bílaleigubílana þá sér meiri hluti nefndarinnar að sér, af því að fyrirvarinn sé svo stuttur, en þegar kemur að því að stytta atvinnuleysisbótatímabilið úr þremur árum í tvö og hálft ár og afnema þær atvinnuleysisbætur er það gert með hálfs mánaðar fyrirvara, og það þykir ekkert athugavert. Bílar skipta meira máli en fólk. Það er náttúrlega alveg hreint undarlegt.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að koma aðeins inn á það sem ég tók eftir, en hér á að lækka gjöld sem renna til umboðsmanns skuldara, og ég tók eftir því að í fjáraukalögunum lækkuðu fjárheimildir til umboðsmanns skuldara um 72 millj. kr. Það var vegna þess að fjárútlát umboðsmanns skuldara urðu mun lægri en áætlað hafði verið vegna fjárhagsaðstoðar við fólk sem sér ekki leið út úr skuldum sínum og æskir þess að fara í gjaldþrot. Það kom í ljós að einungis 41% af þeim sem sóttu um þessa fjárhagsaðstoð hafa fengið hana. Allir hinir hafa verið metnir þannig að þeir voru ekki verðugir, ef svo má segja. Og það sem mér finnst merkilegast svolítið í því sambandi líka, virðulegi forseti, er að í frumvarpinu sem samþykkt var í lok janúar á þessu ári og gekk í gildi 1. febrúar á þessu ári, var ákvæði um að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra setti reglugerð um hvernig ætti að meta þörfina á fjárhagsaðstoðinni. Þessi reglugerð er ekki komin enn, virðulegi forseti. Það er 15. desember. Og svo átti að endurskoða lögin á þessu ári og það er ekki enn komin endurskoðun, það talar enginn um að endurskoða þessi lög. Hvað er þetta? Ég man ekki betur en að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hafi talað manna mest á síðasta kjörtímabili um að hjálpa þyrfti fólki sem væri í alvarlegum fjárhagsþrengingum. En þessu fólki, 59% af þeim sem sækja um þessa fjárhagsaðstoð, er hafnað. Og ekki segja mér að það sé allt óheiðarlegt fólk sem er að reyna að spila á kerfið, það er ekkert svoleiðis, það getur ekki verið, virðulegi forseti.

Síðan langar mig að nefna S-merktu lyfin og vísa til þess sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði hér á undan mér. Í fyrsta lagi leggst þessi aukna greiðsluþátttaka á fólkið sem er með þyngstu sjúkdómana. Sumt af því þarf að taka lyf alla sína ævi, aðrir veikjast síðar á ævinni, en þetta eru lífsnauðsynleg lyf og þetta eru þungir og erfiðir sjúkdómar. Nú á sem sagt að láta þetta fólk borga um 150 milljónir til viðbótar. Og það er líka hárrétt sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði að þetta getur haft veruleg áhrif á bæði hegðan heilbrigðisstarfsfólks og er mikil mismunun á milli sjúklinga og hvernig komið er fram við þá. Það er eiginlega alveg ómögulegt, virðulegi forseti, að breyta greiðsluþátttökunni á þessum lyfjum sem eru, eins og kom fram líka í annarri ræðu, mjög dýr lyf og erfitt fyrir apótekin að taka áhættuna af því að sitja uppi með þau, að þau úreldist hjá þeim og slíkt. Það er ómögulegt að gera þetta án þess að gera rækilega rannsókn á því hvaða áhrif þetta getur haft.

Virðulegi forseti. Síðan langar mig að minnast á skemmtiatriðið með Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Núna erum við í 3. umr. og því hefur ekki verið breytt, enn þá á að klípa 13 milljónir af þeim sjóði út af aðhaldskröfu ríkissjóðs. Það eiga sem sagt að fara 145 milljónir í þennan sjóð. Það vita allir að það vantar fullt af peningum í sjóðinn. Ég hafði vonað að fjárlaganefndin sæi að sér í þessum efnum en ef marka má fréttir frá því í kvöld og viðtalið þar við hv. formann fjárlaganefndar þá er þetta ekki inni. Það var ánægjulegt að heyra í þeim fréttum að þær 50 milljónir sem höfðu verið skornar niður til Útlendingastofnunar virðast eiga að koma inn, ef marka má orð hv. formanns. En það er náttúrlega algjörlega undarlegt að enn eigi þessi sjóður að standa í 145 milljónum. Það liggur fyrir að umsóknir í sjóðinn eru upp á 2 milljarða. En það er kannski með þann sjóð eins og blessað fólkið sem fer í gjaldþrot og sækir um fjárhagsaðstoð þess vegna, ríkisvaldið lítur kannski bara á það þannig að allir sem sækja um hafi ekkert við þetta að gera og séu bara að reyna að verða sér úti um pening. Það er kannski viðhorf ríkisstjórnarinnar og þeirra sem eru við stjórnvölinn til fólksins í landinu og okkar allra, að við viljum öll bara, ég veit það ekki, vera á bótum. Var það ekki eitthvað svoleiðis sem hv. formaður fjárlaganefndar talaði einhvern tíma um í sambandi við velferðarkerfið?

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.