146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið áður fram er 0,5% verg landsframleiðsla um 15 milljarðar en með tilliti til lífeyrisskuldbindinga er talað um ófjármagnaðar skuldbindingar B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem þurfi að fjármagna um 13 milljarða árlega ef ekki er gripið til inngrips þar. Það eru þessi 0,5%.

Staðan er í raun sú að við erum, eins og hefur komið fram, í ákveðinni spennitreyju. Markmiðið er að lækka skuldirnar. Það þýðir að við höfum ekki mikið milli handanna til þeirra framkvæmda sem er talað um að sé nauðsyn á. Það má ekki mikið út af bregða. Eins og umsagnaraðilar sögðu, 1 prósentustigi lægri hagvöxtur, og þá erum við í mínus. Þá gætum við ekki greitt niður skuldir. Þá lendum við í áframhaldandi veseni. Þetta er staðan sem við erum í núna. Það væri í raun kraftaverk ef þetta tækist. (Forseti hringir.) Það væri vel ef þetta tækist en umsagnaraðilar hafa bent á að það er búist við kraftaverki.