146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vék í ræðu sinni að sveitarfélögum og tekjum sveitarfélaga. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að rétt væri að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna. Ég hef t.d. nefnt það að það gæti verið eðlilegt að færa gistináttaskatt frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna. Mér finnst það vel koma til greina. Sveitarfélögin eiga að sýna aðhald því að sveitarfélögin græða líka á því að vextir lækki. Við höfum bara tvö hagstjórnartæki, við höfum afgang af fjármálum hins opinbera og við höfum vaxtatækið. Því meiri sem afgangurinn er hjá hinu opinbera þeim mun lægri geta vextirnir verið. Svo mega hv. þingmenn, þar með talið hv. Logi Einarsson, ekki gleyma því að í stefnunni er 2% svigrúm vegna lækkandi vaxta og minna aðhalds þegar líður á tímabilið. Það eru 66 milljarðar kr. Það eru líka peningar.