150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur nú bara fram að losun sem er á ábyrgð stjórnvalda hefur aukist. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur ekki komið sér undan því. Við búum við þá stöðu að Ísland er með mestu losun koltvísýrings á einstakling, frá hagkerfum, mestu losun innan ESB. Það er verkefni sem við þurfum að takast á við og ég hefði haldið að það væri nú kannski að sitja í glerhúsi með einföldu gleri og kasta grjóti að fara að rifja upp aðkomu einstakra flokka að stóriðju. Hv. þingmaður mætti þá kannski blaða aðeins í fjölmiðlum síðustu ára og rifja upp hvaða aðkomu VG hefur haft að nákvæmlega sömu (Gripið fram í.) uppbyggingu.

En ég held að við ættum, í staðinn fyrir að fara í einhvern tittlingaskít og setja út á orðalag, (Forseti hringir.) frekar að reyna að sameinast um að koma á stjórn um markverðari og metnaðarfyllri markmið.