150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frábæra spurningu. Ég tel einmitt að lögfesting nýrrar stjórnarskrár sé gríðarlega mikilvægt skref, bæði gagnvart því að efla traust á stjórnmálunum og því að taka á spillingu. Í fyrsta lagi yrði samþykkt hennar í sjálfu sér viðurkenning á því að þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og að það geti ekki viðgengist í lýðræðisríki — í alvörunni — að við höfum haldið þjóðaratkvæðagreiðslu sem þjóðin tók þátt í og komst að niðurstöðu sem Alþingi hunsar. Ég get ekki séð hvernig það er til þess fallið að efla traust á okkur sem hér sitjum, að við hunsum það sem þau sem setja okkur leikreglurnar segja. Það er kannski aðalhlutinn í þessu, það að búið er að setja okkur reglur, þær liggja fyrir og hér hunsar meiri hluti lýðræðislegar niðurstöður þjóðarinnar trekk í trekk.

Hvað spillingarvarnir eða eflingu trausts almennt gagnvart þessari stjórnarskrá varðar er þar að finna t.d. ákvæði um vernd uppljóstrara. Þar er að finna miklu skýrari verkaskiptingu og ábyrgðarkeðju gagnvart þeim sem valdið hafa. Þar er líka að finna lýðræðisneyðarhemla, getum við sagt, fyrir almenning til að grípa í taumana ef þeim finnst Alþingi á rangri braut. Það er mjög sterk spillingarvörn að ef almenningur lítur svo á að óeðlilegir hagsmunir ráði för við lagasetningu hafi hann einhver önnur tæki en að bíða í fjögur ár eftir nýjum kosningum til að bregðast við. Það er góð vörn gegn spillingu og líka mjög góð leið til að efla traust á stjórnmálum vegna þess að ef við vitum að við getum brugðist við léttir það strax áhyggjum manna af því sem koma skal.