150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var fróðlegt að heyra að hv. þingmaður gat ekki nefnt neitt sem væri hægt að skera niður. Það er gott að vita það. Þá eru menn auðvitað oft að tala um eitthvað sem er ekki innstæða fyrir, þegar ekki er hægt að nefna neitt sem mætti sleppa og skera niður í þessum málum. Í eitthvað hafa þeir farið, þessir 116 milljarðar í aukin útgjöld. Þegar 34 milljarðar fara inn í rekstur Landspítalans og heilbrigðisstofnana aukalega segir sig sjálft að það er verið að efla heilbrigðiskerfið gífurlega mikið. Það er verið að afnema komugjöld á aldraða og öryrkja, lengja fæðingarorlofið og lækka greiðslur varðandi tannlæknakostnað fyrir aldraða og öryrkja og svona mætti áfram telja. Allt eru þetta uppbyggilegu hlutir í þeirri vegferð að styrkja heilbrigðiskerfið og efla og byggja nýjan Landspítala. Gleymum ekki því að það fór heilt flugfélag á hausinn á síðasta ári. Það hlýtur eitthvað að snerta efnahag landsins. En við erum aftur á uppleið.