151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Laugaland er meðferðarheimili fyrir unglingsstúlkur sem er staðsett í Eyjafjarðarsveit. Þar fá stúlkur sem eru á erfiðum stað í lífinu aðstoð sem eflaust hefur bjargað lífi einhverra þeirra og bætt líf fjölmargra. Það hefur verið mikið rætt um þetta meðferðarheimili að undanförnu vegna þess að núverandi rekstraraðili hefur sagt upp samningi sínum. Barnaverndarstofa hefur tilkynnt að starfsemin verði ekki boðin út aftur og heimilinu verði lokað. Ástæðan er að það er ekki fjárhagslega hagkvæmt fyrir Barnaverndarstofu að stíga inn í reksturinn. Fyrrverandi skjólstæðingar, aðstandendur og starfsfólk á Laugalandi hafa lýst þungum áhyggjum af þessu. Ein stúlkan sem mótmælir fyrirhugaðri lokun lýsir dvöl sinni með eftirfarandi hætti:

„Ég var 17 ára þegar ég fór á Laugaland. Þetta er eina meðferðarheimilið sem ég hef farið á sem hefur í alvörunni hjálpað mér. Laugaland er sá staður sem bjargaði bæði lífi mínu og geðheilsu.“

Þegar maður les frásagnir stúlkna og aðstandenda hlýtur maður að velta fyrir sér hvar samfélagið okkar er raunverulega statt ef fjárhagsleg rekstrarskilyrði ráða úrslitum um hvort starfsemi er eða ekki. Félags- og barnamálaráðherra hlýtur að vera sammála mér um að það sé óboðlegt að loka Laugalandi án þess að nokkuð annað taki við sem liggi nú þegar fyrir. Ég hvet hæstv. ráðherra til að stíga fast til jarðar í þessu máli og það hratt, eyða óvissunni og afstýra lokun Laugalands.