154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[16:49]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er til mikils að vinna að lækka verðbólgu og vexti og við í Samfylkingunni höfum vakið athygli á grunnorsökum þess og hvaða þætti ríkið gæti mögulega komið að. Þar erum við annars vegar að tala um kjarasamninga og húsnæðismarkaðinn og svo líka um það sem er mögulega að bresta á, þ.e. gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga. Ég ætla að vekja athygli á því að hér í fjárlögum og í bandormi er búið að fella allar tillögur sem snúa að kjarasamningum eða húsnæðismarkaðnum. Það hefði getað gefist tækifæri hérna í fjáraukanum til að bæta við framlag til sveitarfélaganna í tengslum við málaflokk fatlaðs fólks og gefa þeim þannig svigrúm til að vinna upp þann gríðarlega halla sem hefur orðið og er í rauninni að setja þau í mjög óþægilega stöðu hvað varðar gjaldskrárhækkanir. Með þessu er algerlega verið að vísa ábyrgðinni á ástandinu frá ríkissjóði þrátt fyrir að aðalútgjaldavöxturinn núna á milli ára sé vegna vaxtakostnaðar, verðlags og launa. Ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra virðast í rauninni, eins og hæstv. ráðherra hefur sjálf sagt, halda að það sé nóg að við trúum því bara að verðbólgan lækki, að það þurfi engar sértækar aðgerðir.