134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:50]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hugsanlega hefur þessari ræðu átt að vera beint til hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er alveg rétt að fyrri ríkisstjórn gaf mörg loforð inn í framtíðina en það mun reyna á efndirnar. Loforð eru loforð og yfirlýsingar eru yfirlýsingar.

Að því er varðar það sem kemur fram í þessari stefnuyfirlýsingu þá er það einfaldlega þannig að VG hefur t.d. lagt áherslu á að bæta stöðu þeirra sem eru á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum. Þess sér stað, það er í gadda slegið í þessari yfirlýsingu.

VG hefur talað um það að bjóða upp á meiri heimahjúkrun og hér hefur jafnvel verið nefnt að veita sólarhringsþjónustu. Það er hér í þessari stefnuyfirlýsingu.

VG hefur á allra síðustu dögum þingsins talað um að einstaklingsmiða þjónustuna betur. Það er hér í þessari stefnuyfirlýsingu.

VG hefur talað um að afnema skerðingar vegna tryggingabóta vegna tekna maka. Það er hér í þessari stefnuyfirlýsingu.

VG hefur talað um að reyna með einhverjum hætti að koma til móts við þá sem eru með varanlega skerta starfsgetu. Það er hér í þessari stefnuyfirlýsingu.

VG hefur talað um að færa málefni aldraðra og ég held líka fatlaðra frá ríkinu yfir til sveitarfélaga. Herra forseti. Það er hér í þessari stefnuyfirlýsingu.

Ég gæti þá kannski sagt: Hvað er VG að kvarta? en ég geri það ekki. Ég veit að þeir eru í stjórnarandstöðu og það er eðli stjórnarandstöðu að veita harða mótspyrnu. Það eiga þeir að gera, sérstaklega þegar um er að ræða svo stóran og sterkan meiri hluta eins og nú er við völd. Það er hlutverk stjórnarandstöðunnar að halda mönnum við efnið, þannig að ég segi bara: Takk fyrir, gangi ykkur vel.