135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:38]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er því að sjálfsögðu fylgjandi og við erum það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að fjárveitingavaldið og löggjafinn veiti þeim stofnunum sem fjármunum er veitt til eðlilegt aðhald, að sjálfsögðu. Ég hef trú á því að það sé gert gagnvart heilbrigðis- og öldrunarstofnunum almennt.

Við höfum hins vegar gagnrýnt að þessum stofnunum skuli mismunað á grundvelli rekstrarforms að því leyti að sá skuli fá mest í sinn hlut sem þarf að greiða eigendum sínum arð. Það var sett niður á blað í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta væri skýringin á þessu. Þetta var skýringin á þessu. Um það snerust deilurnar um Öldung hf. á sínum tíma. Síðan var það náttúrlega ýmislegt annað í þeirri ráðagjörð allri, og ég vék að því hér fyrr í dag, um útboðið og hvernig að því var staðið. En það er önnur saga og talsvert lengri.