138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:47]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir skuli að nokkru leyti taka undir með mér varðandi áhyggjur af boðaðri aðför að íslenskri kvikmyndagerð. Orð hv. þingmanns vekja með mér nokkra bjartsýni, ekki síst með tilliti til þess að hv. þingmaður er formaður menntamálanefndar Alþingis.

Ef ég vík aðeins að öðrum menntamálum hefur það ekki farið fram hjá neinum að íslenskt skólakerfi, grunnskólakerfi fyrst og fremst, dregur dám af þeirri þjóðfélagsbreytingu sem orðið hefur á undanförnum áratugum sem felst í því að nú þarf og hefur hvert heimili tvær fyrirvinnur og þyrfti náttúrlega helst fleiri í kreppunni. Sú grundvallarstofnun sem heitir Íslenskt heimili er nú um stundir lokað daglega milli 9 og 5 og í prinsippinu er þessi stofnun, Íslenska heimilið, aðeins opin á kvöldin og um helgar. Þetta leiðir af sér mikla þörf fyrir dagvistun og þeirri þörf hefur íslenskt skólakerfi svarað af miklum myndarskap. En samtímis því hefur áhersla á frumframleiðslu skólakerfis, menntun og sjálfsaga því miður drabbast niður.

Í þeim niðurskurði sem fyrirhugaður er (Forseti hringir.) væri kannski ekki úr vegi að rifja upp aftur forgangsmál í sambandi við rekstur íslensks grunnskólakerfis.