149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

stefnumótun í heilbrigðismálum.

[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst um það sem hv. þingmaður nefndi síðast: Nei, ég hef ekki áhyggjur af því að heilbrigðisstefnan komist ekki í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna eða í gegnum ríkisstjórn. Í þessari stefnu er fjallað um mönnunarmál, gæðamál, kaup á heilbrigðisþjónustu, sem okkur hefur ítrekað verið bent á að þurfi að taka á með skýrari hætti en við höfum gert. Fjallað er um jöfnuð og ýmislegt annað sem ég tel að allur þingheimur sé sammála um að þurfi að innsigla í sameiginlegri stefnu.

Mín afstaða er sú að heilbrigðisstefna eigi að vera partur af samfélagssáttmálanum. Við eigum ekki að togast á um hana í þeim anda sem stundum hefur borið við.

Það er ekki verið að loka göngudeild SÁÁ á Akureyri þó að hv. þingmaður segi það. Nefnt hefur verið að það gæti staðið til. Ég hef verið með þau mál til skoðunar. Og af því að hv. þingmaður nefnir hér Hugarafl; Geðheilsa – eftirfylgd sá um geðheilbrigðisteymið (Forseti hringir.) fyrir tiltekinn hóp af fólki. Mér hefur verið tjáð og ég fullvissuð um að sá hópur njóti og muni njóta þjónustu nýrra geðheilbrigðisteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.