151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra kærlega fyrir svörin og vissulega er það rétt að margt gott hefur verið gert, ekki síst innan kerfisins. Hraðinn, málsmeðferðartíminn, er hins vegar viðvarandi vandamál, ekki liðin tíð. Við sjáum dæmi þess nokkuð reglulega þegar við lesum dóma í sakamálum.

Markmiði um dómstóla í fjármálaáætlun er lýst þannig að allir eigi að njóta réttaröryggis og grundvallarmannréttinda, að það ríki traust til dómstóla með því að tryggja greiðan aðgang og réttláta málsmeðferð. Málsmeðferðartíminn er ekki sérstaklega nefndur í þessum kafla en það er auðvitað þannig að málsmeðferðartími er bæði sjálfstæður réttur brotaþola og sakbornings og það er vaxandi áhersla á þennan rétt innan réttarkerfisins innan lands sem utan.

Ég nefni þetta í samhengi við það að félagslegar afleiðingar svona efnahagsástands eins og við glímum við núna eru margvíslegar. Ég verð lítið hissa ef vaxandi málaþungi verður reyndin hjá lögreglu, hjá ákæruvaldi og dómstólum innan tíðar. Við sjáum strax merki um þetta, um aukið ofbeldi á heimilum, og sagan kennir okkur það sama.

Í dómum er gjarnan talað um það að ákæruvaldið hafi ekki getað gefið skýringar á töfum. En svarið er ekki flóknara en það að kerfið hefur ekki undan. Kynferðisbrotamálin eru erfið í rannsókn. Mörg þeirra eru felld niður og hlutfallslega fá leiða til dóms. Þá er það óboðlegt að menn sem eru sakfelldir fyrir svo alvarleg brot sæti vægari refsingu, fái vægari dóm en dómstólar telja að hefði verið eðlilegt, bara vegna málsmeðferðartíma. Ég vil hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til að stíga hér niður fæti og bregðast við. Lausnin á þessum vanda er ekki náðanir sem dómsmálaráðherra er að leggja til. Ég skil þær út frá réttindum sakborninga en þar er verið að tækla afleiðingar vanda en ekki rót. Rafræn áhersla og betrumbót er af hinu góða en mun ein og sér ekki leysa vandann.

En það bjarta við þennan vanda er að hann er í sjálfu sér ekki flókinn að leysa. Það er stundum spurning um verklag og umgjörð (Forseti hringir.) en stundum er vandinn ekki flóknari en svo að það vantar fleiri hendur á dekk og aukið fjármagn.