142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir jákvæð viðbrögð og uppbyggileg og treysti því að það gangi eftir sem hv. þingmaður nefndi, að þessi tillaga fái skjótan framgang hér í þinginu, en jafnframt þær tillögur og frumvörp sem á henni byggjast.

Varðandi spurningar hv. þingmanns liggur fyrir samkomulag milli stjórnarflokkanna um þá þætti sem lýst er í tillögunni, þar með talið um þá vinnu sem í hönd fer og hefst nú við afnám verðtryggingarinnar. Ég hef útskýrt það alloft í umræðu um þau mál, bæði fyrir kosningar og eftir, að vinna sérfræðingahóps um afnám verðtryggingarinnar felist ekki hvað síst í því að þau tækifæri sem skapast við afnám verðtryggingar nýtist sem best. Þar af leiðandi hlýtur sá hópur að fá svigrúm til þess að haga tillögum sínum um afnám verðtryggingarinnar á þann hátt að svigrúmið, tækifærin sem afnám verðtryggingar muni skapa, nýtist sem best.

Hvað varðar hins vegar upphæð leiðréttingar er það rétt sem hv. þingmaður nefnir að oft hefur verið litið til verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, með vikmörkum að sjálfsögðu, sem viðmiðunar. Jafnframt hafa menn litið til meðaltalsverðbólgu árin á undan til þess að finna grunninn, finna það sem telja má eðlilegar væntingar neytenda þegar lán eru tekin, eðlilegar væntingar um verðbólgu.

Það verður að sjálfsögðu líka á verksviði þeirrar nefndar sem útfærir aðgerðirnar svoleiðis að ég treysti því að hv. þingmaður muni, eins og hann gat um í upphafi andsvars síns, gefa þeirri vinnu sem lýst er í þingsályktunartillögunni svigrúm svoleiðis að hún nái öll fram að ganga og gangi greiðlega fyrir sig.