148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir mjög áhugaverða umræðu og góðar spurningar um bætt vinnubrögð á Alþingi. Ég vil segja, af því að hv. þingmaður vísar til þess að ég hafi ekki svarað spurningu áðan, að eins og ég benti á í svari mínu er það í raun og veru á vettvangi þingsins hvort slík rannsókn fari fram, en hins vegar sagði ég það skýrt að áður en dregið yrði úr eignarhaldi ríkis á bönkum yrði að liggja fyrir hvítbókin um framsýn fyrir fjármálakerfið. Hv. þingmaður og ég munum eiga þetta samtal seinna.

Mér finnst þetta ágætisskipting í það mannlega og hið kerfislæga. Ef við horfum frekar á hið kerfislæga sem ég vil nefna eru ákveðnir þættir sem við höfum rætt töluvert á undanförnum árum á Alþingi sem gera það að verkum að formenn þeirra flokka sem nú skipa ríkisstjórn setja eflingu Alþingis á dagskrá í stjórnarsáttmála. Það gerum við ekki sem framkvæmdarvald heldur sem formenn flokka á þingi. Við teljum að það hafi í raun og veru verið gengið ansi hart fram til að mynda í fjárframlögum til Alþingis miðað við fyrir hrun þegar kemur að því að skera niður fjárframlög til þingsins, þannig að aðstæður þingmanna til að sinna skyldum sínum, leita sér sérfræðiaðstoðar, skipuleggja vinnu að eigin frumkvæði, hafa í raun verið skertar. Þess vegna leggjum við til aukin framlög til þingsins núna. Ég held að mikilvægt sé að í framhaldinu forgangsröðum við á vettvangi þingsins, innan forsætisnefndar, ákveðum hvernig við viljum forgangsraða framlögum til þingsins þannig að við gerum þingmönnum kleift að sinna starfi sínu, ekki bara til eftirlits og aðhalds, sem er auðvitað mikilvægt, heldur líka til að geta sýnt frumkvæði, sett mál á dagskrá. Það er fyrsta málið, þessi áþreifanlega hlið sem er fjármögnun Alþingis.

Síðan er að mínu viti mikilvægt að við tökum það til umræðu á þinginu hvernig við viljum skipuleggja betur umræðuna. Það tengist mannlega þættinum að einhverju leyti. Hv. þingmaður nefndi hið fræga málþóf. Ég hef afar oft staðið í því að vera sökuð um málþóf í mikilvægum málum, ég á ágætisferilskrá í því samhengi. Ég hef alltaf sagt að við myndum ekki vera í málþófi nema okkur fyndist málin mikilvæg. Við erum að koma ákveðnum málefnalegum athugasemdum á framfæri, og hvaða önnur úrræði höfum við? Ég er sjálf þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að fá eitthvert ákvæði til styrkingar þinginu inn í stjórnarskrá sem væri t.d. eins og við þekkjum frá Danmörku, að þriðjungur þingmanna gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er spurt: Bíddu, yrði það ekki til þess að þriðjungur þingsins væri stöðugt að senda mál í þjóðaratkvæðagreiðslu? Nei, það er ekki mín skoðun. Ég tel að þingið myndi fara vel með þetta vald, en það væri um leið gríðarlegt aðhald á meiri hlutann hverju sinni að vanda sig við málsundirbúning sinn.

Þá kem ég að þriðja kerfislæga málinu sem er hvernig við undirbúum mál. Á það hefur verið bent að hér á landi sé aðkoma þingsins að þingmálum meiri en annars staðar á Norðurlöndum, þ.e. Alþingi Íslendinga gerir meiri breytingar á þingmálum en almennt þekkist í hinum norrænu ríkjunum. Það er að sumu leyti vegna þess að mál eru undirbúin hér með allt öðrum hætti. Þingmenn fá málin hrá, ef svo má að orði komast, frá framkvæmdarvaldinu, og þá er ég að vísa til stjórnarfrumvarpa, meðan víða annars staðar á Norðurlöndum er miklu meiri undirbúningsvinna, opinber jafnvel, með aðkomu þingmanna. Ég hef talað fyrir þeirri leið. Ég tel það góða leið til að vanda sig betur við lagasetningu.

Ég hef verið gagnrýnd af þeim sem eru ósammála mér og segja að þar með séu þingmenn í raun og veru komnir í það hlutverk að vera að undirbúa löggjöf sem þeir eiga sjálfir að taka á sem löggjafarvald á síðari stigum. En við höfum hins vegar mjög góð dæmi um slíka löggjöf. Ég nefni lög um málefni útlendinga. Ég nefni lög um fjölmiðla, sem voru reyndar ekki undirbúin með aðkomu þingmanna en með fulltrúum allra þingflokka við borðið.

Mín skoðun er sú að þetta þurfi ekki að stangast á við það hlutverk þingmanna að gera svo nauðsynlegar breytingar í meðförum Alþingis á málinu. Ég held að þetta þýði einfaldlega að frumvörp komi betur undirbúin til þings, umræðan verði þroskaðri og við lendum þar af leiðandi ekki í tímaþröng við umræðu mikilvægra mála. Þetta tel ég að eigi sérstaklega við þegar um er að ræða heildarlöggjöf um tiltekna málaflokka. Ég er þeirrar skoðunar.

Ég vísaði áðan í hvítbók um fjármálakerfið. Það gæti verið dæmi um að við værum að ræða málin út frá aðeins öðrum grunni en við höfum gert, þ.e. að við séum fyrst, áður en við leggjum til mikilvægar lagabreytingar, búin að taka umræðu um sérfræðigrunninn sem slík lagabreytingarvinna myndi byggja á. Það er alþekkt alls staðar í kringum okkur að fyrst er unnin sérfræðivinna, hún er lögð inn til umræðu, ekki til ákvörðunar, þar er hlustað eftir sjónarmiðum. Það skilar sér inn í löggjöfina.

Ég er ekki að segja að við munum breyta þessu öllu á einu þingi en ég met það þannig, út frá hv. þingmanni og málshefjanda sem hér talaði og sömuleiðis út frá því sem ég heyri frá fulltrúum (Forseti hringir.) allra flokka, að mikill vilji sé til þess að við leggjum af stað og finnum út úr því hvernig við getum unnið okkur áfram.

Ég hef ekki komið að því sem ég hefði viljað ræða, sem varðar afgreiðslu (Forseti hringir.) annarra mála en stjórnarfrumvarpa, en ég kem kannski að því í síðara innleggi.