149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[15:54]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir þessari umræðu um orkuöryggi. Það er mikilvægt að við ræðum það í þingsal. Ég fagna því sérstaklega og mun svara þeim þremur spurningum sem þingmaðurinn leggur fram.

Varðandi fyrstu spurninguna er það rétt að ekki sitja allir landsmenn við sama borð þegar kemur að afhendingaröryggi raforku. Það er áhyggjuefni og eitt af mörgu sem við þurfum að bæta úr. Það hefur auðvitað ekki gengið sem skyldi í mjög mörg ár og m.a. þess vegna er það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að finna sérstakar áherslur í þá veru. Ég fagna þeim og við vinnum eftir þeim.

Gott dæmi um þetta — eða vont dæmi um þetta, mætti kannski segja — eru Vestfirðir og Eyjafjörður, eins og hv. þingmaður bendir á. Á vorþingi var afgreidd á Alþingi þingsályktunartillaga sem ég lagði fram um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þar er að finna skýrar áherslur og markmið af hálfu stjórnvalda sem ber að taka mið af við uppbyggingu flutningskerfisins í gegnum kerfisáætlun Landsnets. Í því þingskjali eru Vestfirðir og Eyjafjörður sérstaklega nefnd sem svæði sem þarf að forgangsraða þegar kemur að úrbótum á afhendingaröryggi.

Ég verð að segja að það mál fékk góða meðferð og umræðu í þinginu. Ég vil jafnframt leyfa mér að segja að það kom mér nánast á óvart og var gott að finna þann samhljóm að við erum öll sammála um að bæta þarf úr. Ályktunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og skilaði nefndin einu áliti. Mér finnst það sýna að við erum hérna á réttri leið. Við sjáum þess síðan strax stað að þessar áherslur hafa þegar ratað í forgangsröðun Landsnets á framkvæmdum í flutningskerfinu. Má þar nefna Kröflulínu 3 og Hólasandslínu sem tengja Eyjafjarðarsvæðið við Fljótsdalsvirkjun. Við Kröflulínu 3 er áætlaður framkvæmdatími 2019–2020 og við Hólasandslínu 2020–2021. Þær framkvæmdir munu stórbæta afhendingaröryggi raforku á Eyjafjarðarsvæðinu. Þessar tvær framkvæmdir eru samtals upp á 14 milljarða króna og eru menn vongóðir um að báðar verði kláraðar á kjörtímabilinu.

Hið sama má segja um framkvæmdir á Vestfjörðum. Þar hefur Landsnet forgangsraðað framkvæmdum með vísan til áherslna í áðurnefndri þingsályktun. Við sjáum því strax að það virkar. Aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa að þingsályktuninni skilar sér síðan í forgangsröðun Landsnets. Má þar nefna að sæstreng yfir Arnarfjörð verður væntanlega flýtt vegna þingsályktunarinnar. Fleira mætti nefna eins og hringtengingu á Snæfellsnesi og tvöföldun tengingar í Neskaupstað.

Það er því ánægjulegt að sjá að stefna stjórnvalda, eins og hún kemur fram í þingsályktuninni sem samþykkt var í vor, mun koma til framkvæmda í gegnum forgangsröðun Landsnets. Þess vegna segi ég aftur að við séum á réttri leið.

Að því er varðar spurningu tvö er svarið við henni einfaldlega og augljóslega að ég tel það ekki ásættanlegt að í landi sem býr yfir jafn hreinni orku og Ísland séu fyrirtæki í vissum landshlutum tilneydd til að keyra á óhreinni orku. Eins og fram kom hér að framan höfum við reynt að bregðast við með því að leggja fram skýrar áherslur þar sem Landsnet tekur mið af við uppbyggingu flutningskerfisins. Í þingsályktuninni er að finna sérstaka áherslu að því er varðar notkun dísilolíu til fiskimjölsbræðslna. Sem dæmi um að sú áhersla er þegar komin til framkvæmda kynnti Landsnet nýlega að flýtt yrði endurbótum á spennuhækkun á raflínu til Þórshafnar með það fyrir augum að fiskimjölsbræðslan þar geti keyrt á raforku í stað dísilolíu.

Um það þarf ekki að hafa mörg orð að öll þjóðhagsleg og umhverfisleg rök styðja það markmið. Að þessu munum við vinna áfram út kjörtímabilið. Þetta er t.d. eitt af þeim grundvallaratriðum í vinnu við gerð langtímaorkustefnu sem hafin er, en það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það tekur tíma að vinna hana og koma henni til framkvæmda.

Loks er spurt um hvort Hvalárvirkjun sé besta leiðin til að auka afhendingaröryggi á rafmagns á Vestfjörðum og hvort ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því að sú leið verði farin. Hvalárvirkjun myndi bæta afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum að því leyti að með tilkomu hennar yrðu Vestfirðir væntanlega óháðir bilunum á stórum hluta vesturlínu sem verið hefur mjög bilanagjörn. Vesturlína er sem kunnugt eina raforkuæðin inn til Vestfjarða og liggur frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun, um 160 km leið. Hversu mikið afhendingaröryggi myndi aukast við þetta veltur á því hvar tengingin við vesturlínu yrði staðsett, hvort það yrði vestarlega eða austarlega og þar með hversu stórum hluta vesturlínu Vestfirðir yrðu óháðir.

Hvað varðar aðkomu ríkisstjórnarinnar þá er það ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða í hvaða virkjunarframkvæmdir ráðist er. Um slíkar ákvarðanir gilda lögbundnir ferlar þar sem rammaáætlun gegnir lykilhlutverki. Alþingi varðar veginn í þessum efnum og síðan taka við viðeigandi leyfisveitingaferlar, skipulagsmál og þess háttar.