149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir sitt innlegg hér. Ég skynja orð hennar þannig að hún styðji þetta mál og kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Ég bind enn miklar vonir við að hér myndist þverpólitísk samstaða um að við stígum þetta skref.

Varðandi þýðingarnar — jú, að sjálfsögðu, ég tek undir það. Við þurfum að einhenda okkur í þetta strax. Það var bent á þetta fyrir a.m.k. tveimur árum af hálfu velferðarnefndar þess tíma. Það var sagt í umsögnum sem bárust nefndinni á þeim tíma að þýðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á íslenska tungu væri afar illa unnin og þar með óásættanleg. Nefndin á þeim tíma brýndi ráðuneytið að fara yfir þýðinguna. Þá kannski varpa ég boltanum til velferðarráðuneytisins: Af hverju hefur þýðingin ekki verið löguð? Þá geri ég það bara hér með úr þessum ræðustól. Auðvitað þarf þessi þýðing að vera í lagi. Ég get ekki ímyndað mér að það taki langan tíma en að sjálfsögðu þarf þetta að vera í lagi, sérstaklega ef við erum að fara að gera þetta að lögum, tala ekki um það. Þeirri áskorun er svo sannarlega komið á framfæri.

Ég held að það sé líka góður punktur, sem hv. þingmaður talar hér um, að þetta sé ekki bara jákvætt skref fyrir fatlaða. Þetta er jákvætt skref fyrir samfélagið. Þetta er ákveðinn vitnisburður um hvernig við viljum standa að okkar samfélagi. Síðast þegar ég gáði voru 19.000 öryrkjar hér á landi og fötlun er eitthvað sem allir geta lent í, hvort sem þeir fæðast í þær aðstæður eða lenda í slysi eða hvernig sem það orsakast. Ég vil bara sjá Ísland á fremsta bekk hvað þetta varðar. Með þessu skrefi værum við fyrsta land í heiminum sem myndi lögfesta þennan samning eftir því sem ég best veit. Ég lét Alþingi tékka á því. Ég vil það alveg eins og við ákváðum að lögfesta barnasáttmálann. Þegar ég lagði það fram á sínum tíma fékk ég alls konar kerfiskallaleg rök: Nei, við eigum ekki að lögfesta alþjóðasamninga. Nei, hin Norðurlöndin hafa ekki getað gert þetta og þá getum við ekki gert þetta.

Jú, við getum bara víst gert þetta. Við getum tekið pólitíska ákvörðun um að hér sé þetta skref stigið, um að samningur um réttindi fatlaðs fólks sé lögfestur. (Forseti hringir.) Ég vil endilega brýna fyrir nefndinni að láta ekki kerfisrökin vinna og segja að þetta sé of flókið eða tíðkist ekki í öðrum ríkjum. Stígum skrefið til fulls og verum fremst hvað varðar réttindi fatlaðra í þessu sambandi.