151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:00]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar þessi faraldur reið yfir eða þegar okkur varð ljóst í mars að hann væri að ríða yfir tók ég undir það sjónarmið að núgildandi sóttvarnalög veittu sóttvarnayfirvöldum ákveðnar heimildir í ákveðnu bráðaástandi. Ég held að enginn deili um það að ákveðið ástand getur komið upp þar sem ríður á að bregðast skjótt við í takmarkaðan tíma. Þegar leið síðan á þennan faraldur, og ég tala nú ekki um þegar komið var fram á sumar, fannst mér ljóst að þessi heimild gæti ekki gengið lengi og jafnvel kannski ekki í apríl, maí og ég hef talað fyrir því í ræðu og riti. Þingið kom ekki mikið saman þannig að ekki gafst manni tækifæri á að ræða þetta hér í þinginu. Ég furðaði mig á því að þingið skyldi ekki koma saman til að ræða þetta sérstaklega og að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa beitt sér fyrir því að koma með sérstaka lagasetningu um aðgerðir í þessum efnum þar sem gæfist líka tækifæri á að fara yfir og ræða það við þingið hvernig menn sæju fyrir sér ýmsar sviðsmyndir eftir því hvernig faraldurinn myndi þróast.

Hvað gerist t.d. ef kórónuveiran hverfur aldrei, ef á Íslandi verða næstu fimm, tíu, fimmtán árin alltaf að greinast 5–30 smit á mánuði? Hvað ætla menn þá að gera? Þessi umræða er öll eftir og ég held að farsælt hefði verið að reyna að koma henni í farveg strax í upphafi þessa faraldurs með sérstökum lögum sem heimila sóttvarnayfirvöldum tilteknar aðgerðir í tiltekinn tíma og að þessi lög væru endurnýjuð eða heimildirnar endurnýjaðar eða framlengdar með einhverjum hætti en alltaf með aðkomu þingsins.