151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir nokkuð greinargóða og fína ræðu. Það eru tvær, þrjár spurningar sem ég fór að velta fyrir mér undir ræðu hv. þingmanns. Þingmaðurinn talar um að hann hefði að sumu leyti viljað ganga lengra og þá held ég að ég hafi skilið hv. þingmann þannig að það væri varðandi það að skýra lögin, þ.e. að gengið væri lengra í því í rauninni að segja hvað má og hvað má ekki. Hann kom inn á það síðar í ræðu sinni að afmörkun heimilda ríkisins þyrfti m.a. að vera ljósari. Ef við teljum að það séu grá svæði í þessu, að ekki sé alveg ljóst hvort ríkið sé að fá heimildir eða að heimildirnar séu nógu skýrar eða afmörkun þeirra, þá spyr maður sig: Er hætta á að eitthvert stjórnvald nýti sér þessa óskýru afmörkun? Er þá ekki betra að leggjast aðeins betur yfir þetta og skýra þetta betur? Þetta er það sem ég er að velta fyrir mér.

Í öðru lagi: Ef afmörkunin býður upp á túlkanir erum við þá að opna fyrir möguleika á einhvers konar lögfræðilegum átökum, dómsmálum og þess háttar, vegna ákvarðana sem eru byggðar á þessum lögum, þ.e. ef afmörkunin er ekki nógu skýr? Það er kannski meginhugsunin sem laust í kollinn á mér þegar hv. þingmaður fór ágætlega yfir þetta og hann hefur mjög gott yfirlit yfir þetta mál allt saman.