152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru samningaviðræður sem tóku auðvitað mjög langan tíma; þar var örugglega ansi margt lagt á borðið og fjallað um fram og til baka og á endanum fengin einhver niðurstaða í þau mál. Ég hef ekki yfirlit yfir allt sem þar var borið á borð og sérstaklega rætt um. Um algjörlega frjálsa för á milli landa get ég ekki fullyrt núna en mögulega í seinna svari, þ.e. hvort við gerðum kröfu um slíkt, en Bretland var með ansi skýra línu í því, eins og ég skil málið. Það er í raun ekkert land sem er með slíkt fyrirkomulag. Þeir tóku ákvörðun um að setja upp ákveðnar girðingar þegar kemur að algjörlega frjálsri för annarra þegna til sín. Um það gilda nú aðrar reglur og strangari og þar á meðal gagnvart okkur. Þótt fríverslunarsamningurinn hafi verið algjört lykilskjal og lykilatriði í samskiptum milli okkar eru þar þættir vegna ákvörðunar þeirra um að ganga úr ESB — og Bretar sóttust ekki eftir því sérstaklega að ganga í EFTA eða EES-samninginn, í því fólst af þeirra hálfu að hafa ekki eins frjálsa för til og frá landinu. Það á þar með líka við um okkur. Þrátt fyrir að þetta sé algjört lykilplagg í okkar samskiptum — og við getum ímyndað okkur að ef við hefðum þann samning ekki og værum þar af leiðandi bara hreint og klárt þriðja ríki værum við í mun meiri vanda. En frjáls för er ekki eins og hún var áður. Það var ein ástæðan fyrir því að Bretar tóku ákvörðun um að ganga úr ESB, þannig að þau mál eru ekki að öllu leyti sambærileg við það sem var áður. Ég get mögulega svarað því í seinna svari hvort við höfum gert slíka kröfu en Bretar voru einfaldlega ekki í slíkum viðræðum.