154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

viðbrögð við stöðu Íslands í PISA-könnuninni.

[10:59]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að breytingum í menntakerfinu þá eru þær ekki unnar á einni nóttu. Það eru allir sammála um það sem koma að menntakerfum að við vinnum ekki breytingar á einni nóttu, aðgerðir sem við samþykkjum hér og ræðum, það tekur tíma að innleiða þær í hverja og eina skólastofu. Nýleg QUINT-rannsókn, sem er rannsókn á því sem er að gerast inni í skólastofunum á Íslandi, gefur tilefni til að álykta að þar höfum við ekki verið að standa okkur nægilega vel í því að þjónusta kennarana, aðstoða kennarana og þá sem eru að vinna með börnunum. Það er ekki hægt að taka eitthvað eitt eins og hv. þingmaður segir: Við breytum þessu og þá verður allt í lagi. (Gripið fram í.) Ég velti því fyrir mér þegar hv. þingmaður segir að kerfið okkar sé að bregðast í þessum töluðu orðum: Þær stóru breytingar sem við erum að vinna að núna, er hv. þingmaður ósammála þeim breytingum, að þær muni koma til gagns inni í hverri einustu skólastofu? Skólaþjónustulöggjöf, matsferill, námsgagnaútgáfa, ný þjónustustofnun. Ef svo er þá skulum við ræða það. (Forseti hringir.) En ég er sannfærður um að þær stóru breytingar eru til þess fallnar (Forseti hringir.) að gera breytingar til lengri tíma á íslensku menntakerfi og þar þurfum við að vinna saman og við þurfum að tala saman. (Forseti hringir.) Ég mun aldrei tala gegn því að við eigum samtal vegna þess að það er grunnurinn að því að ná árangri.