133. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:43]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða stórkostlegt mál og það er mér mikil ánægja að fá að greiða atkvæði um það. Ég er afskaplega stoltur af því að fá á mínu fyrsta kjörtímabili að vera með í liði stjórnarflokkanna sem eru búnir að lækka skatta um heila 40 milljarða kr. eins og hér kom fram.

Hér er um það að ræða að matvara fer öll í 7%, bækur, tímarit, húshitun, hótelgisting, veitingaþjónusta, geisladiskar, hljómplötur og segulbönd. (Gripið fram í.) Ég veit ekki til þess, og þekki þó nokkuð til, að nokkurn tíma hafi nokkur ríkisstjórn gengið í aðrar eins skattalækkanir og þær sem við erum að fara í hér í dag.

Ég held að það sé ekki bara ástæða til að þakka samstöðu ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli, ég held að það væri ekki sanngjarnt. Ég held að við ættum að nota tækifærið og þakka alveg kærlega sérstaklega þingflokki Samfylkingarinnar, sem enginn treystir eins og við þekkjum, þar sem sá stjórnmálaflokkur og nánar tiltekið þingflokkur var nefnilega fyrir síðustu kosningar eini stjórnmálaflokkurinn (Gripið fram í: Er þetta atkvæðaskýring?) sem hafði ekki breytingu á virðisaukaskattsstiginu á stefnuskrá sinni. (Gripið fram í.) Nú er þessi þingflokkur búinn að taka slíka U-beygju að í hverju einasta máli kemur hér yfirboð. Virðulegi forseti. Það er miklu betra að hafa þetta svona, að Samfylkingin komi með yfirboð í hverju skattalækkunarmálinu á fætur öðru en að hún geri eins og hún lýsti yfir fyrir síðustu kosningar, að hún ætlaði að berjast gegn öllum breytingum á virðisaukaskattsstiginu. Fyrirrennari þessa flokks hvorki meira né minna en sprengdi ríkisstjórn þegar rætt var um að lækka matarskattinn.

Virðulegi forseti. Hér er ekki aðeins um að ræða stórkostlegan árangur hjá ríkisstjórnarflokkunum, heldur sjáum við að þingflokkur Samfylkingarinnar er mun skárri svona en hann var rétt fyrir síðustu alþingiskosningar.