139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan í fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra að þessir samningar væru miklu betri en þeir sem samþykktir voru af ríkisstjórninni og ríkisstjórnin barðist hatrammlega fyrir að yrðu samþykktir. Í því ljósi verður að taka til greina að samningarnir sem lagðir voru fyrir þjóðina voru svo óhagstæðir að þeir hefðu þýtt fátækt og niðurskurð í velferðarkerfinu langt umfram það sem við eigum við í dag. Það var boðað til mótmæla úti um allt land út af niðurskurði upp á 3 til 4 millj. Tölurnar sem við erum að fást við í Icesave-málinu eru svo stjarnfræðilega háar að aðeins brot af þeim, vextir í nokkra daga, samsvara niðurskurðinum sem var tilefni mótmæla úti um allt land.

En af hverju segi ég þá að samningarnir séu svona miklu betri? Það eru þrjú atriði sem ég vil benda á sem sýna af hverju þeir eru svona miklu betri.

Í fyrsta lagi átti að neyða þjóðina til að borga vexti umfram skyldu. Með öðrum orðum, okkur bar engin lagaleg skylda til að borga vexti frá 1. janúar en þrátt fyrir það var ákvæði um að við skyldum gera það í öllum samningunum og ríkisstjórnin barðist fyrir því að þannig skyldi það vera. Við erum að tala um vexti frá 1. janúar til 27. september sem hljóðuðu upp á 35 milljarða kr. 35 milljarðar kr. eru einn þriðji af því sem við eyðum í allt heilbrigðiskerfið. Það er meira en við ætlum að eyða í allar samgöngubætur á næsta ári. Núna liggur fyrir að það eigi ekki að greiða þetta umfram skyldu og ég fagna því sérstaklega.

Það sem er hins vegar undarlegt er að nú er talað um vaxtahlé. Það er væntanlega til þess að fegra ásýnd ríkisstjórnarinnar til að reyna að hylma yfir hversu illa hún hefur staðið sig og draga athyglina frá því að það átti að neyða Íslendinga til að borga þessa vexti.

Síðan erum við í öðru lagi að borga miklu minni vexti en áður var talið. Það átti að neyða Íslendinga að borga 5,5% vexti. Nú eru þeir rétt rúmlega 3%. Þessi prósenta skiptir Íslendinga tugi milljarða kr.

Í þriðja lagi og einn af þeim hlutum sem mér fannst skipta miklu máli var að ef Íslendinga greindi á um samninginn átti að leysa málið fyrir dómstólum í Bretlandi. Með öðrum orðum, við áttum að fara á heimavöll Breta sem voru gagnaðilar okkar í málinu. Það voru þeir sem settu hryðjuverkalög á okkur. Það voru þeir sem ætluðu að knésetja Íslendinga og gera þá fátæka til framtíðar. Við áttum að sæta því að fara þangað og sækja málið samkvæmt breskum lögum fyrir breskum dómstóli. Nú er það úti. Það verður hlutlaus dómstóll. Það er að þessu leyti sem ég get sagt að samningarnir séu miklu betri.

Ef ekkert af þessu hefði gerst, ef samningarnir sem lagðir voru fyrir þjóðina hefðu ekki verið lagðir fram þá held ég að samningurinn sem nú liggur fyrir hefði verið dæmdur öðruvísi en menn dæma hann. Menn eru ánægðir að sjá að það var hægt að ná betri samningum. Því ber að fagna. Ég er gríðarlega ánægður að sjá að það hafi gerst. Ef maður lítur hlutlaust á samningana sem liggja á borðinu og ef maður ímyndar sér að ekkert af þessu hefði gerst, þá er ég ekki svo viss um að samningarnir séu svo frábærir þegar allt kemur til alls. Það liggur eftir sú staðreynd að það getur vel verið að við eigum ekki að borga krónu, að það liggi engin lögformleg skylda á Íslendingum að borga fyrir Icesave-samningana. Ég segi að ef sú skylda lægi fyrir þá gætum við talað um að samningarnir sem eru á borðinu væru sanngjarnir á einhvern hátt. Ég tek undir með þeim sem segja að nú sé hægt að tala um að Íslendingar hafi samið uppréttir. Að þeir hafi samið sem hlutlaus þjóð.

Það er reyndar ankannalegt að hugsa til þess að Bretar og Hollendingar gerðu sín stærstu mistök með því að gera samningana eins vonda og raun ber vitni. Ef samningarnir hefðu ekki verið jafnvondir er ekki víst að andstaðan hefði verið jafnhörð, andstaða sem leiddi til þess að samningunum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. En maður veltir því fyrir sér og ég mun aldrei fá botn í það af hverju ríkisstjórnin lagði ofuráherslu á að samningarnir væru samþykktir.

Ég hlustaði með athygli á hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra áðan. Hann er sá sem ég held að hafi verið hvað lengst frá sannleikanum í þessu máli frá upphafi. Hann byrjaði á því að fullyrða að fyrir tveimur árum hefði verið samið um þessa samninga í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Hann benti á og fullyrti að það væri meginregla í alþjóðarétti að starfsmenn ráðuneyta gætu samið fyrir hönd þjóðarinnar. Að ráðuneytismaður, skrifstofumaður, gæti með stöfum sínum skuldbundið þjóðina, gæti dæmt börnin okkar til langrar framtíðar til fátæktar með undirskrift sinni. Það væri meginregla í alþjóðarétti. Ég maldaði aðeins í móinn en er ekki viss um að það hafi náð almennilega í gegn. Nú fullyrti hann áðan að þetta hefði tafið uppbygginguna, þetta hefði gert það að verkum að einhver kostnaður hefði hlotist af biðinni.

Hann var spurður af hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur hvað hann ætti við, hvaða stórframkvæmdir það væru sem hefðu tafist. Hann gat ekki svarað því, sagði að fjármögnun Landsvirkjunar og einhverra annarra hefði tafist, benti á Búðarhálsvirkjun. Allt það sem hefur verið fullyrt á þessu eina ári, og ég var löngu hættur að nenna að svara blaðagreinum þingmanna Samfylkingarinnar um að allt væri að fara til andskotans vegna þess að mér fannst þær svo vitlausar, hefur reynst rangt. Það er hægt að skoða hvort eitthvað af þessu hefur tafist. Ef við förum yfir það var Búðarhálsvirkjun sett í framkvæmd fyrir þó nokkru síðan. Icesave hafði ekkert með það að gera. Það var byrjað að framkvæma það sem hægt var að framkvæma.

Við getum t.d. nefnt verkefni hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Það er einmitt forsenda þess að Helguvík fari af stað. Hellisheiði 5 var og er í fullri uppbyggingu. Það hafði ekkert með Icesave að gera, nákvæmlega ekki neitt.

Sú orka sem á að koma úr neðri hluta Þjórsár er einfaldlega stopp vegna þess að þar eru skipulagsdeilur og umhverfisráðherra hefur sett það allt í frost. Nákvæmlega sama var upp á teningnum hvað varðar Bakka á Húsavík. Með öðrum orðum, það var í rauninni ekkert sem var stopp út af Icesave.

Ég ræddi við forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins. Ég fann ekki betur en þeir væru sammála mér um að það væru engar framkvæmdir í orkugeiranum stopp. Einn þeirra sagði ég að það væri erfitt að fjármagna einkafyrirtæki. Ég bað hann að nefna dæmi og hann nefndi Icelandair. Ég hringdi í forsvarsmenn Icelandair. Þeir fullyrtu á fundi að fjármögnun þeirra, endurfjármögnun sem hefur gengið með ágætum, hafði á engan hátt laskast út af Icesave. Þvert á móti. Það voru fréttir um daginn að Marel hefði endurfjármagnað. Fréttir af öðrum fyrirtækjum hafa ekki borist. Engu að síður kemur ríkisstjórnin og heldur því fram að þetta hafi kostað eitthvað. Ég get ekki alveg sagt hvað það var mikið en dómur sögunnar mun leiða í ljós að kostnaðurinn hafi verið einhver. Dómur sögunnar sýnir í rauninni fram á að þessi ríkisstjórn hefur haft svo rangt fyrir sér að það hálfa væri nóg. (Gripið fram í: Algerlega.) Algerlega eins og kallað er fram í úr sal.

Það sem mér svíður hvað mest í þessari umræðu er að menn eru að reyna að segja að það sé þrátt fyrir allt ríkisstjórninni að þakka að þetta hafi ekki farið á versta veg. Það hefur enginn fullyrt eða komið með einhverjar sannanir fyrir því hvernig það hafi verið gert. Við bentum ítrekað á að tíminn mundi vinna með okkur í þessu máli, það væri ekkert sem lægi á og dómsdagsspár samfylkingarmanna ættu ekki við rök að styðjast.

Þá komum við að þeirri undarlegu staðreynd að það skuli vera stjórnmálaafl á Íslandi, sem nýtur sífellt minna fylgis, þar sem allir þingmenn þess skulu vera sammála um að það ætti að greiða fyrir Icesave-samningana og ekki einn einasti þeirra skyldi hafa rétt upp hönd og sagt: Ja, strákar og stelpur, getur verið að við höfum rangt fyrir okkur? Ekki einn einasti þingmaður lyfti upp hönd úr röðum Samfylkingarinnar. Þeir voru allir sammála; einn hugur, einn heili, ein stefna og allir gengu í takt. Það átti að borga Icesave. Það er ótrúlegt. Það er ótrúlegt vegna þess að innan borðs eru margir frambærilegir og dugmiklir einstaklingar.

Frú forseti. Ég legg á það ofuráherslu að tíminn sem við höfum þangað til þing kemur saman á ný verði nýttur í að þýða skjölin sem lögð hafa verið fyrir. Þau eru á flóknu ensku lagamáli. Við fáum sérfræðinga til að fara yfir það og síðast en ekki síst, að við fáum upplýsingar um hvað er í þrotabúi Landsbankans. Hverjar eru eigur þrotabús Landsbankans? Við kölluðum ítrekað eftir því í fyrri Icesave-umræðum. Við höfum ekki fengið svar en á það legg ég áherslu. Við munum svo skoða málið faglega og málefnalega eins og við höfum áður gert og reyna að svara öllum spurningunum sem koma fram í meðferð málsins.