141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá spurningu um grunnforsendur efnahagsstefnunnar á þessum tímapunkti því auðvitað eru það þær sem við þurfum að tala um af miklu meiri alvöru. Hagvöxtur á Íslandi verður ekki byggður upp með því að virkja. Virkjanir og nýting orkuauðlinda er mikilvægur þáttur í sjálfbæru efnahagskerfi, en getur ekki einn og sér drifið áfram hagvöxt. Við höfum af því bitra reynslu, að það getur haft í för með sér mjög erfið eftirköst og alvarlegar afleiðingar. Við fórum meira að segja offari í því efni eins og Kárahnjúkavirkjun var nokkuð dæmi um, þar sem meltingartruflanir hagkerfisins vegna virkjunarinnar voru slíkar að það var stór þáttur í þeirri efnahagsþróun sem leiddi hér síðar til hruns.