146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið. Fyrst varðandi þessa hröðu niðurgreiðslu skulda í því skyni að lækka vaxtagreiðslurnar: Eins og ég nefndi í ræðu minni er það vel að vilja lækka skuldir. En ég og fleiri þingmenn í þessum þingsal höfum velt því fyrir okkur hvort þessi gríðarlega áhersla á lækkun skulda niður fyrir lögbundið markmið laga um opinber fjármál, niður fyrir það markmið, sé nauðsynleg akkúrat núna. Hvort ekki væri betra og skynsamlegra, þegar búið er að bíða í mörg ár eftir sjálfsagðri innviðauppbyggingu og var eitt af meginloforðum flokks hæstv. fjármálaráðherra, að fara hægar í niðurgreiðslu skulda og eyða þá frekar tekjum ríkissjóðs til þess að fara í uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu og í samgöngumálunum. Ég er a.m.k. þannig þenkjandi. Ég held að það væri skynsamlegt. Það myndi mæta þeirri eftirspurn sem er til staðar og því sem fólkið þarna úti hefur verið að bíða eftir í mörg ár.

Varðandi bankasöluna heyrist mér að við hæstv. fjármálaráðherra séum sammála um að það þurfi að taka tíma í allt er nefnist sala á hlut ríkisins í bankakerfinu. Ég er feginn að heyra að hann er þar. En hér talaði formaður fjárlaganefndar í gær og vildi fara í sölu á hlut ríkisins í bönkunum á þessu fimm ára tímabili. Hann vildi gera það á fimm árum og talaði digurbarkalega um það. Hann reyndi reyndar að leiðrétta sjálfan sig þegar hann kom aftur í ræðustól.

Ég held, bæði í ljósi tíðinda er varða söluna á (Forseti hringir.) Arion banka sem og tíðinda dagsins í dag, að við verðum að hafa allt þetta söluferli upp á borðum og gagnsætt og standa vel að því.