148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

leiguíbúðir eldri borgara í Boðaþingi.

[15:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera hæstv. velferðarráðherra grein fyrir því sem ég var að lenda í núna um helgina. Ég var á fundi með íbúum í Boðaþingi í Kópavogi, eldri borgurum, sem hafa fengið uppsagnarbréf frá leigusala sínum og það á að bera þá út. Sú elsta verður níræð núna í haust og hún á að fara fyrst, hún á að fara 1. maí, hinir eiga að fara 1. október.

Aðdragandinn að þessari uppsögn er sá að íbúunum þótti þeir vera hlunnfarnir í samskiptum sínum við leigusalann þar sem þeir hefðu verið látnir greiða hluta hússjóðs sem var ekki þeirra að greiða. Það er skemmst frá því að segja að eftir mikla og langa þrautagöngu við leigusalann sem hafði ekki gert neitt með það sem þau höfðu fram að færa og hunsað allar leiðréttingar og breytingar í þá átt, þá höfðuðu þau dómsmál gegn leigusalanum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þau unnu það mál 10. febrúar 2017. Rúmum mánuði seinna voru þau búin að fá uppsagnarbréfið. Ef þau skrifuðu ekki undir breytingar á leigusamningi þar sem þau afsöluðu sér öllum þeim áunna rétti sem dómsorðið hafði gefið þeim, þá gátu þau tekið pokann sinn og pjönkur og farið. Þetta er nú í rauninni öryggi íbúanna í Boðaþingi og eldri borgara sem er að verða níræður.

Ég spyr hæstv. velferðarráðherra: Hvað eigum við að gera, hæstv. velferðarráðherra, til þess að koma í veg fyrir svona lagað og til þess að hjálpa þessu fólki?