149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Ég vildi fyrst og fremst koma hér í lokin og þakka umræðuna. Málefnið er göfugt, og tilefnið. Umræðan var skemmtileg og ég ætla að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, sem talaði um skemmtilega umræðu. Ég ætla ekki að fara að bera þetta saman við umræðu um fjáraukalög fyrr í dag, þetta er svolítið ólíkt, sem ég ætla að taka undir, þetta er virkilega skemmtilegt.

Ég lærði ýmislegt um bækur og gildi bóka. Það er aldrei hægt að eiga of mikið af þeim, sagði hv. þm. Snæbjörn Brynjarsson. Og helst heilan akur, sagði hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson, líka vondar bækur, þær verða að rúmast á þeim akri. Svo komum við inn á fjölbreytileikann, formið, miðlunina og allt það og jafnframt hvaða leið hefði verið betri en sú sem farin er hér með stuðningi með endurgreiðslu kostnaðar eða upphaflega leiðin með virðisaukann og það eru auðvitað rök með og á móti.

Ég ætla ekki að fara yfir alla þá umræðu, en samt rúmaðist í umræðunni allir þeir kostir og gallar. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór mjög vel yfir það, gallana við virðisaukaskattinn. Ég hef flutt frumvarp um virðisaukaskattinn sem snýr að íþróttahreyfingunni, að undanþiggja hann eða afnema virðisaukaskatt eða gefa afslátt af honum með einhverjum hætti vegna þess að hægt er að fara ólíkar leiðir. Ég hygg að afnám virðisaukaskatts, eins og var lagt upp með, hefði komið í veg fyrir að bókaútgefendur hefðu getað innskattað sig á móti og þar með hefðu þeir ekki fengið jafn mikið út úr því og fara þá leið. Þessi leið er hreinni. Það getur maður lesið í mörgum skýrslum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um hvernig slíkar undanþágur eða fleiri þrep gata kerfið. Það býður upp á alls konar möguleika á að flytja ólíkar vörutegundir á milli sem ættu að vera skattaðar annars staðar o.s.frv. Þetta er ekki einfalt. Á móti kemur nefnd, eitthvert bákn, eitthvert bókhald og einhverjar kæruleiðir o.s.frv. En við skulum vona að þetta gangi upp eins og við erum að leggja upp með. Þetta er í það minnsta hreinna.

Um er að ræða aðgerð til að efla útgáfu bóka og bókamarkaðinn og um leið hluti af aðgerðaáætlun um að efla íslenska tungu. Ábatinn er margvíslegur og ég myndi lengja þessa umræðu verulega ef ég ætlaði að fara að telja upp allt það sem kom fram í prýðisgóðum og skemmtilegum ræðum. En það verður fjölbreyttara úrval, bæði að formi og efni vonandi, lægra verð ef að líkum lætur, hvetur til lestrar ekki síður. Við skulum vona að þetta nái til ungu kynslóðarinnar. Styðji þannig við íslenska tungu og varðveislu tungumálsins okkar, menningu og listamennina, sem höfundar vissulega eru, og stuðli þannig að aukinni almennri hagsæld. Þá erum við farin að meta þetta sem einhvers konar hagfræðilegan ávinning. En við getum líka nefnt það, eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagði, að efla andlegt líf í landinu. Ég get líka alveg tekið undir það. Þetta er þannig verkefni. Ég vona svo sannarlega að það gangi upp. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er gert að fylgjast vel með og endurskoða reynsluna 2022 og þá eigum við að fara í gegnum alla þá þætti sem komu fram í umræðunni, sem var virkilega góð umræða, og ég þakka hana sérstaklega öllum þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt.

Ég vil jafnframt koma á framfæri þökkum, af því að þetta var samvinnuverkefni tveggja ráðuneyta ásamt hv. allsherjar- og menntamálanefnd, við veitta aðstoð í menntamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Síðan vil ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu og samstöðu um þetta góða málefni. Það er virkilega ánægjulegt að öll hv. allsherjar- og menntamálanefnd er á málinu.